Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti hyggst halda áfram sem einn aðalframleiðandi raunveruleikaþáttanna Celebrity Apprentice eftir að hann tekur við embætti í janúar.
Trump var umsjónarmaður þáttarins til ársins 2015 þegar ferill hans í stjórnmálum fór að vera tímafrekur. Hann mun hins vegar vera áfram titlaður framleiðandi þáttarins þegar ný sería hefst í janúar, en þá mun Arnold Schwarzenegger sjá um umsjón þáttarins.
Þessar fregnir hafa vakið spurningar um hagsmunaárekstur, en Trump tekur við forsetaembættinu þann 20. janúar, 18 dögum eftir að nýja serían hefst. Margir hafa jafnvel áhyggjur af því að þetta geti haft áhrif á fréttaflutning af honum á NBC, þar sem þátturinn er sýndur.
Hope Hicks, talskona Trump, sagði að Trump eigi töluverða hagsmuna að gæta vegna þess að hann er einn af sköpurum þáttarins, ásamt Mark Burnett.
NBC tók ákvörðun í júní síðastliðnum um að slíta samningum við Trump eftir niðrandi ummæli hans í garð innflytjenda í kosningabaráttunni. Serían sem sýnd verður á næsta ári var hins vegar tekin upp í febrúar síðastliðinn, áður en NBC sleit tengslum við Trump.
Trump verður áfram framleiðandi The Apprentice
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
