Fór ein í brúðkaupsferð til Íslands tveimur vikum eftir brúðkaupið
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Við Jökulsá á Breiðamerkursandi.Mynd/Stefi_War
Það er víðtekin venja að nýgift pör fari saman í brúðkaupsferð en sú er ekki raunin með Stephanie Warzecha frá Ástralíu. Aðeins tveimur vikum eftir brúðkaupið sitt skellti hún sér ein í brúðkaupsferð og Ísland varð fyrir valinu.
Hún segir að þetta sé besta ákvörðun sem hún hafi tekið á lífsleiðinni og samband hennar við eiginmann sinn sé sterkara en nokkru sinni fyrr en þau giftu sig í Króatíu þann 27. september síðastliðinn.
Það var félagi Stephanie sem stakk upp á þessu og þegar hún minntist á þetta við eiginmann sinn Doug sagði hann henni að kýla á þetta. Stephanie er enn á ferðinni og hefur farið til níu landa, þar á meðal Íslands þar sem hún er nú stödd. Hún viðurkennir þó að hún sakni eiginmanns síns.
„Þegar ég var lögð af stað áttaði ég mig á því hvað þetta væri langur tími sem við værum aðskilin,“ sagði Stephanie í samtali við Daily Mail. Þau talast við á hverjum degi en helsta ágreiningsefnið séu peningamál enda hætti Stephanie í vinnunni til þess að fara í ferðalagið.
Á Íslandi.Mynd/Stefie_War„Hann hefur haft áhyggjur af peningamálunum sem er kannski skiljanlegt þar sem ég hætti í vinnunni. Við erum þó mjög góð í að tala saman og finna lausnir á því sem er að angra okkur í fari hvors annars,“ segir Stephanie.
Hún segir einnig að ferðalagið og fjarveran hafi gert sambandinu afar gott.
„Nú þegar ferðin er að klárast söknum við hvors annars æ meir en í upphafi ferðarinnar held ég að við höfum bæði notið frelsisins,“ segir Stephanie. „Ferðin hefur verið afar góð fyrir sambandið enda lenda mörg pör í því að festast í sama fari.“
Stephanie hefur þegar lagt drögin að fleiri ferðum og ætlar sér að ferðast ein um Suður-Afríku í desember á næsta ári. Hún hefur þegar lent í ýmsu hér á Íslandi en meðal annars aðstoði kött við að gjóta á bóndabæ sem hún gisti á.