Körfubolti

Fúlasti 55 stiga maður NBA-sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeMarcus Cousins.
DeMarcus Cousins. Vísir/AP
NBA-leikmaðurinn DeMarcus Cousins er duglegri en flestir að koma sér í vandræði og það var engin undantekning á því í nótt þótt að kappinn hafi skorað 55 stig í sigri Sacramento King á Portland Trail Blazers.

Fyrr um daginn sektaði Sacramento Kings DeMarcus Cousins, sinn eigin leikmann, um 50 þúsund dollara fyrir að hrauna yfir blaðamann Sacramento Bee en það gera tæpar sex milljónir íslenskra króna.

Cousins var ekki sáttur um umfjöllun um bróður sinn og lét öllum illum látum þegar hann hitti blaðamanninn næst.

Cousins var því örugglega eitthvað pirraður þegar hann mætti í leikinní nótt en ákvað að sýna það í verki af hverju margir eru að bíða eftir að karlinn þroskist og verði einn af bestu leikmönnum deildarinnar.

Cousins hitti úr 17 af 28 skotum sínum í leiknum og endaði með 55 stig, 13 fráköst og 3 varin skot á 40 mínútum.  



DeMarcus Cousins var aftur á móti rekinn út úr húsi í lokin fyrir að öskra á varamannabekk Portland Trail Blazers. Hann missti munnstykkið út úr sér og einn dómarinn hélt að hann hefði hent því í átt að bekk Portland.

Cousins fékk fyrir það sína aðra tæknivillu og var sendur í sturtu. Eftir stuttan fund dómaranna ákváðu þeir hinsvegar réttilega að taka tæknivilluna til baka og leyfa DeMarcus Cousins að klára leikinn.



DeMarcus Cousins pirraðist enn meira við þetta en spilaði góða vörn í lokin sem hjálpaði hans liði að vinna leikinn.

Þegar hann mætti síðan pirraður og reiður í sjónvarpsviðtal efir leikinn þá hraunaði hann yfir dómara leiksins og kallaði framgöngu þeirra fáránlega. Eftir það viðtal var auðvelt að krýna hann fúlasta 55 stiga mann NBA-sögunnar.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×