Innlent

Innanlandsflug liggur niðri

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Flugfélögin munu endurmeta stöðuna klukkan 11.15.
Flugfélögin munu endurmeta stöðuna klukkan 11.15. vísir/vilhelm
Öllu innanlandsflugi hefur verið frestað vegna veðurs. Flugfélag Íslands og flugfélagið Ernir munu endurmeta stöðuna klukkan 11.15. Þá hefur flugi frá Reykjavíkurflugvelli til Kulusuk í Grænlandi verið aflýst í dag. Millilandaflug er allt á áætlun.

Veðurstofan hefur varað við stormi víða um land í dag og þá er búist við mikilli rigningu sunnantil á landinu fram eftir degi. Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að skil muni ganga hratt austur yfir landið í dag og að það muni kólna ört í kjölfarið með suðvestan hvassviðri eða stormi og éljagangi og lélegu skyggni. Veðrið gengur niður í nótt og á morgun, fyrst vestantil. Næsti stormur er síðan væntanlegur á sunnudagskvöld.

Færð og aðstæður

Greiðfært er að mestu á Suður- og Vesturlandi en hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Á Vestfjörðum er að mestu greiðfært á láglendi en hálka eða hálkublettir á fjallvegum.

Þá er greiðfært á flestum leiðum á Norðurlandi en þó eru hálkublettir á einhverjum fjallvegum og útvegum.

Vegir eru að mestu greiðfærir á Austur- og Suðausturlandi, hálkublettir eru þó á flestum fjallvegum og hálks er á Út-Héraði og Háreksstaðaleið, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×