Laufey Rún Ketilsdóttir lögfræðingur hefur verið ráðin aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Laufey Rún hefur þegar hafið störf.
Laufey Rún er fædd 18. júní 1987 í Reykjavík. Hún er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands (BA) og Háskólanum í Reykjavík (MA). Þá lauk hún stúdentsprófi af hagfræðibraut Verzlunarskóla Íslands.
Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins segir að Laufey Rún hafi starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá árinu 2014 en þar áður unnið hjá Juris lögmannsstofu, Gjaldskilum innheimtuþjónustu, regluvörslu Arion banka og í viðskiptaumsjón Kaupþings.
Laufey Rún er formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna og situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Þá var hún framkvæmdastjóri SUS árið 2015 og hefur setið í stjórn sambandsins frá 2010. Laufey sat áður í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Á námsárum sat Laufey í ritnefnd Úlfljóts, tímarits laganema.

