Suðvestan hvassviðri með dimmum éljum sunnan- og vestanlands er spáð í dag en með hægari suðlægum áttum og snjókomu þar með kvöldinu. Búast má við snjókomu á morgun.
„Veturinn ræður nú ríkjum, eins og vænta má af almanakinu. Í dag gengur á með allhvössum útsynningi og éljum sunnan- og vestanlands. Vindar verða þó hægari á Norður- og Austurlandi og léttir smám saman til þar. Í kvöld kemur smálægð upp að suðurströndinni og fer þá að að snjóa sunnan og vestan til,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings sem birtar eru á vef Veðurstofunnar.
„Á morgun leggst hann í ákveðna austanátt og snjóar þá víða, en lægir smám saman og rofar til á Suður- og Vesturlandi. Eftir helgi er síðan spáð norðanáttum með tilheyrandi ofankomu fyrir norðan og austan og kólnandi veðri. Á Suður- og Vesturlandi verður þó víða bjartviðri, en vetrarlegt um að litast.“
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Austan 8-15 m/s og slydda eða snjókoma N og A-lands fram eftir degi, en dregur síðan talsvert úr vindi og rofar til. Austan 5-10 og stöku él S- og V-til. Kólnandi veður og frost 0 til 8 stig um kvöldið, minnst við sjávarsíðuna.
Á mánudag:
Gengur í norðaustan 13-20 m/s, hvassast austast. Snjókoma eða él N-til, en slydda austast, en annars þurrt að kalla. Minnkandi úrkoma um kvöldið. Hiti í kringum frostmark.
Á þriðjudag:
Norðankaldi og él austast, en annars hægari og víða bjart. Kólnandi veður.
Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:
Norðaustlæg átt og víða dálítil él, en bjartviðri SV-lands. Víða talsvert frost.
"Veturinn ræður nú ríkjum“
sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
