Spánverjar eru greinilega komnir með frábært kvennalandslið í fótbolta en liðið vann 3-0 sigur á Noregi í Algarve-bikarnum í kvöld en liðin eru með Íslandi í riðli.
Spænska liðið skoraði þrjú mörk á fyrstu 42 mínútum leiksins og náði síðan að halda velli þrátt fyrir að missa leikmann af velli með rautt spjald rétt fyrir hálfleik.
Fyrsta markið var sjálfsmark Maríu Þórisdóttur á 25. mínútu en Jennifer Hermoso kom spænska liðinu í 2-0 á 39. mínútu og Olga Garcia Perez skoraði síðan þriðja markið á 42. mínútu. Hermoso og Olga Garcia spila báðar með liði Barcelona.
María Pilar León fékk sitt annað gula spjald á 44. mínútu og þurfti því spænska liðið að spila tíu á móti ellefu allan seinni hálfleikinn.
Spánn er í 14. sæti á FIFA-listanum eða þremur sætum neðar en Noregur og sjö sætum neðar en Japan. Ísland er í 20. sæti heimslistans.
Spánn vann 2-1 sigur á Japan í fyrsta leik en ísland tapaði á móti Japan fyrr í dag og gerði 1-1 jafntefli við Noreg í fyrsta leik sínum á mótinu. Lokaleikur íslensku stelpnanna í riðlinum verður á móti Spáni á mánudaginn.
María skoraði sjálfsmark í tapi norska liðsins á móti Spánverjum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
