Innlent

Rólegheitaveður og víða vorsól

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Búast má við rólegheitaveðri og víða vorsól næstu daga.
Búast má við rólegheitaveðri og víða vorsól næstu daga. Skjáskot/Veðurstofan
Búast má við rólegheitaveðri og víða vorsól næstu daga. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Hiti mun ná allt að 20 stigum í innsveitum norðanlands og austan en líkur eru á þokulofti við sjávarsíðuna og verður svalara í þokunni.

„Allmikil hæð milli Jan Mayen og Noregs og lægð suðaustur af Hvarfi beina hlýju lofti yfir landið. Áfram verður suðaustanstrekkingur og dálítil væta við suður- og vesturströndina fram eftir degi, en lægir síðan og styttir upp. Fyrir norðan og austan blæs fremur hæg sunnanátt og léttir smám saman til,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu

Suðaustan 10-15 m/s og dálítil rigning eða súld S- og V-til, en annars 5-10 og þurrt að kalla. Dregur úr vindi og úrkomu eftir hádegi, en og léttir víða til. Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt og yfirleitt léttskýjað á morgun, en víða þokuloft við sjávarsíðuna. Hiti yfirleitt 8 til 15 stig, en allt að 20 stigum í innsveitum NA-til.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:

Hægir vindar, víða léttskýjað og hiti 13 til 20 stig, hlýjast inn til landsins, en sums staðar mun svalara í þokulofti við sjávarsíðuna.

Á sunnudag:

Hæg breytileg átt og víða þoka, en léttskýjað inn til landsins. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast í innsveitum.

Á mánudag og þriðjudag:

Útlit fyrir norðanátt með kólnandi veðri og smá vætu fyrir norðan, en áfram bjartviðri og milt syðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×