„Ekkert lát er á veðurhamnum því á morgun hvessir enn og bætir í úrkomu, einkum fyrir austan, og blotnar síðan á öllu landinu,“ segir á vef Veðurstofunnar, þar sem varað er við stormi við suðausturströndina í dag og hvassri norðaustlægri átt.
Fremur svalt verður i veðri og dálítil él víða um land, lítils háttar væta suðaustantil en þurrt vestanlands. Um helgina fer loks að hlýna þó lítið sjáist af vorsólinni að sinni.
Aftakaveður var í nótt en hátt í 50 manns leituðu í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í Vík í Mýrdal í gær fyrir ferðamenn sem biðu af sér storminn sem gekk yfir Suðurland.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi höfðu lögreglumenn og björgunarsveitir í nógu að snúast í gær. Þakplötur fuku, rúður brotnuðu í ökutækjum og fjarskiptamastur í Dyrhólaey féll. Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki.
