Fjórir ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands voru varaðir við því að byggingarreglugerðir um brunavarnir tryggðu ekki öryggi íbúa og að nauðsynlegt væri að endurskoða þær.
Þetta kemur fram í frétt á vef BBC. Þar segir að sérfræðingar hafi reynt að vara við eldhættu í slíkum byggingum í mörg ár og fengið þau svör að breytingar á reglugerðum væru í vinnslu.
Í kjölfar mannskæðs bruna í fjölbýlishúsi í Suður Lundúnum árið 2009 voru lagðar til breytingar við stjórnvöld um breytingar á reglugerðum en þær hafi fallið í grýttan jarðveg. Þá lofuðu stjórnvöld breytingum á reglugerðunum árið 2013 í kjölfar annars mannskæðs bruna en nú, fjórum árum seinna, hafi enn ekkert gerst.
Þverpólitísk nefnd allra þingflokka breska þingsins um eldvarnaröryggi sendi ríkisstjórninni rúman tug bréfa þar sem sagt var að yfirvöld gætu ekki hætt á annan harmleik.
Samkvæmt frétt BBC fengu fjórir ráðherrar slík bréf en þrátt fyrir það hafi engar breytingar orðið á reglugerðum enn.
Ronnie King, fyrrverandi slökkviliðsstjóri og einn nefndarmanna, segir að ríkisstjórnin hafi ítrekað hunsað viðvaranir um öryggi íbúa í háhýsum.
„Við höfum eytt fjórum árum í að segja „hér eru sönnunargögnin, nú eruð þið með þau, það er augljós samhugur í samfélaginu um þetta, þið ættuð að gera eitthvað,““ er haft eftir King á vef BBC.
Fjórir ráðherrar voru varaðir við eldhættu í háhýsum í London

Tengdar fréttir

Mótmæli og mikil reiði vegna viðbragða yfirvalda við brunanum í Grenfell-turni
Fjölmenn mótmæli voru í Kensington og Chelsea í London í dag vegna viðbragða yfirvalda við brunanum í Grenfell-turni aðfaranótt miðvikudags.

Ólýsanlegar aðstæður í Grenfell-turni: Talið að allt að sjötíu manns hafi látið lífið
Talið er að allt að sjötíu manns hafi farist í brunanum í Grenfell-turni í vesturhluta London aðfaranótt miðvikudagsins 14. júní.

Klæðningin á Grenfell-turninum var bönnuð á Bretlandi
Fjármálaráðherra Bretlands segir að klæðningin sem var utan á Grenfell-turninum sem brann á miðvikudag sé ólögleg í Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum. Að minnsta kosti 58 eru látnir eftir eldsvoðann.

Mannskaði í stórbruna í Lundúnum
Tólf eru látnir í gríðarlegum eldi sem logaði í háhýsi í Kensington-hverfi í Lundúnum í nótt.