Lífið

Fólkið á Solstice: Íslenski bjórinn slær ekki í gegn hjá Colorado-vinkonunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vinkonurnar Donell og Emmalee eru mættar til Íslands í fyrsta skipti og spenntar fyrir Secret Solstice hátíðinni í Laugardal. Þær höfðu áður skipulagt ferðina til Íslands og sáu svo fyrir tilviljun í síðustu viku að hátíðin væri á meðan á dvöl þeirra stæði.

„Þetta var frábær tímasetning svo við ákváðum að mæta á fyrsta daginn,“ segir Emmalee. Þær vinkonur eru frá Colorado í Bandaríkjunum og höfðu meðal annars séð Helga Björns og SSSól þegar blaðamaður hitti á þær.

„Þetta er gjörólíkt tónlistinni heima en þetta er stórskemmtilegt.“

Þær segjast hafa verið undirbúnar fyrir hvers lags veður og nýbúnar að kaupa sér regnkápu en væta hefur verið í kortunum fyrir helgina. Þær hafa þó ekki áhyggjur af veðrinu.

Stelpurnar sötruðu Viking bjór og höfðu það gott á milli atriða við Valhallarsviðið.

„Við elskum lifandi tónlist og bjór,“ segja þær en virðast ekkert sérstaklega hrifnar af Viking bjórnum.

„Hann er öðruvísi,“ segja þær og bæta við að þær hafi sterkar skoðanir á bjór og góðu vanar frá Colorado. Framundan er ferðalag á Íslandi á sendiferðabíl sem þær geta gist í.

Viðtalið við þær Donell og Emmalee má sjá í spilaranum að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×