Innlent

Ástandið á Seyðisfirði versnaði ekki í nótt

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Myndin er tekin á Eskifirði um klukkan 20 í gær.
Myndin er tekin á Eskifirði um klukkan 20 í gær. Snorri Aðalsteinsson
„Það hefur minnkað töluvert síðan í nótt, þetta hefur lagast,“ segir Kristján Kristjánsson, staðgengill bæjarverkstjóra á Seyðisfirði um stöðu mála á Seyðisfirði eftir að mikið vatnaveður olli því í gær að vatn flæddi inn í hús sem standa við Dagmálalæk við Garðarsveg á Seyðisfirði. Einnig urðu skemmdir á ársgamalli brú á Eskifirði.

„Það er verið að skoða þetta. Við erum að vinna í því að reyna að opna þar sem aurskriðan fór yfir þannig að við getum farið að skoða svona út fyrir,“ segir Kristján.

Kristján segir að það hafi rignt töluvert í nótt en þetta hafi sloppið til. Ekki er búið að meta skemmdir og tjón eins og er og segir Kristján að verið sé að skoða fjörðinn og hvort að það hafi komið fleiri skriður.

Kristján segir að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir ástandið.

„Þetta var svo óhemjumikið vatnsmagn sem var að koma,“ útskýrir Kristján.  Hann segir að almennt séð séu bæjarbúar á Seyðisfirði nokkuð rólegir og allir hafi lagt hönd á plóg til að stemma stigu við ástandinu.

Svona var ástandið í gær. Gunnar Gunnarsson, ristjóri Austurfrétta, á heiðurinn að myndbandinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×