Innlent

Ekki útlit fyrir Kötlugos eins og staðan er í dag

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Katla sefur rótt enn sem komið er.
Katla sefur rótt enn sem komið er. Vísir/Vilhelm
Skjálftahrina í Kötlu hefur verið nokkur undanfarna daga. Sumir skjálftar hafa verið á miklu dýpi en þó ekki margir. Stærsti skjálftinn í þessari viku mældist þann 20. júní og var 3,6 að stærð. Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, staðfestir þetta en segir þó að ekki sé útlit fyrir gosi á næstunni.

„Hún hefur venjulega sýnt meiri virkni á sumrin síðustu ár og við teljum að það sé vegna bráðnunar og leysingavatns. Þá minnkar fargið á jöklinum og það getur valdið jarðskjálftum. Hún er búin að vera róleg í dag. Þetta var líka svona í fyrra en við fylgjumst grannt með þessu og sjáum hvernig þetta þróast,“ segir Sigríður Magnea og nefnir að Katla sé alveg á áætlun hvað þetta varðar þar sem skjálftahrina hafi byrjað um sama leyti í fyrra. 

„Það er örugglega einhverjar kvikuhreyfingar en það er ekki eins og hún sé á leiðinni upp á yfirborðið,“ segir Sigríður Magnea og nefnir að þau séu með mikið eftirlit með Kötlu. Sigríður Magnea segir að ef stærri skjálftar aukast ásamt rafleiðni í ám, fyrir tilstilli aukins jarðhitavatns, þá sé líklegt að Katla sé að vakna af tæplega hundrað ára svefni, en eins og staðan er núna geti fólk andað rólega.  


Tengdar fréttir

Ómar Ragnarsson: „Ég er alltaf tilbúinn til ferðar, annað hvort fljúgandi eða á jöklabíl, hvert sem er og í marga daga'“

Í hverju horni má heyra fólk spá og spekúlera hvenær Katla muni gjósa því hún sé svo sannarlega komin á tíma. Reglulega koma fréttir um skjálftavirkni í grennd við Kötlu og landinn setur sig í stellingar. Einn þeirra sem bíður óþreyjufullur eftir því að Katla gjósi er einn ástsælasti fréttamaður og skemmtikraftur þjóðarinnar, Ómar Ragnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×