Hefð er fyrir því að drottning fari með stefnuræðu fyrir nýja ríkisstjórn eftir kosningar, í þessu tilfelli minnihlutastjórn May. Stjórnmálagreinandi BBC, Laura Kuenssberg, sagði í gær að May hefði væntanlega séð daginn fyrir sér sem einhvers konar krýningarathöfn fyrir nokkrum vikum en eftir að flokkurinn tapaði meirihluta í kosningum hafi gærdagurinn þess í stað kórónað fall May.
Corbyn sagði að í ljósi þess að May hefði tapað þó nokkrum völdum hefði flokkur hennar þurft að bakka með ýmis stefnumál. Til að mynda áform um að afnema lög um ókeypis upphitun fyrir eldri borgara og sjálfkrafa hækkun eftirlauna sem og áform um að hætta að gefa ungum skólabörnum ókeypis hádegismat.

„Þingið getur ekki leyst allt en samvinna er þáttur í því að styrkja samkennd og sjálfstraust þjóðarinnar,“ bætti May við.
Forsætisráðherrann tjáði sig einnig um bruna Grenfell-turnsins. Baðst hún afsökunar á mistökum yfirvalda sem hún sagði ekki hafa brugðist við brunanum á réttan hátt. Lofaði hún óháðum lögfræðingi til að starfa fyrir fjölskyldur sem urðu fyrir tjóni í brunanum.
Engin stefnuræða drottningar verður á næsta ári og því þurfti ræða hennar í gær að spanna tveggja ára áform. Af þeim 27 frumvörpum sem útlistuð voru fjalla alls átta um Brexit, til að mynda um áhrif Brexit á innflytjendamál, milliríkjaviðskipti, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál.
Mikilvægast þessara frumvarpa snýr að því að binda enda á lögsögu Evrópudómstólsins yfir Bretlandi og að innleiða öll Evrópusambandslög í bresk lög þess í stað.
Á meðal annarra mála sem komust á dagskrá voru frumvörp um stofnun nýs embættis sem á að beita sér gegn heimilisofbeldi, um að klára að koma á lestarsamgöngum á milli Birmingham og Crewe og um aukna persónuvernd á netinu og hinn svokallaða rétt til að gleymast.