Í dag er spáð allhvassri suðaustanátt og rigningu, einkum um landið sunnan-og vestanvert, að því er segir í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Víða verður hvassviðri vestan til seinni partinn og því þurfa ökumenn á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind að fara varlega.
Sterkar hviður verða við fjöll vestanlands og einna hvassast verður á norðanverðu Snæfellsnesi. Þá mun talsvert magn úrkomu falla á Snæfellsnesi sem og á Reykjanesi.
Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:
Suðaustan 8-15 með rigningu, en mun hægari og þurrt A-til fram yfir hádegi. Minnkandi úrkoma seint í dag en bætir í vind, einkum V-til, hvassast á N-verðu Snæfellsnesi. Hiti 9 til 16 stig að deginum, hlýjast nyrðra.
Suðaustan 8-15 á morgun og víða rigning en lengst af þurrt N-lands. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast fyrir norðan.
Á miðvikudag:
Suðaustan 5-13. Rigning S- og V-lands, en þurrt að kalla norðan heiða fram til kvölds. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á N-landi.
Á fimmtudag:
Fremur hæg suðlæg átt og skúrir, einkum síðdegis, en austlæg átt 8-13 við norðurströndina og rigning. Hiti 8 til 14 stig.
Á föstudag:
Norðaustlæg átt 5-13 en hvassari við SA- og A-ströndina. Rigning N- og A-til, en annars bjart með köflum og stöku skúrir. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast S-lands.
Á laugardag:
Norðaustan 5-10, en hægari seinniapartinn. Dálítil rigning NA-til í fyrstu, en annars víða bjartviðri. Heldur kólnandi á NA-landi.
Á sunnudag:
Hæg norðlæg eða breytilega átt. Skýjað með köflum og þurrt N-til, en annars bjartviðri að mestu. Hiti breytist lítið.
Ökumenn á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind fari varlega
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
