Innlent

Væta í kortunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það má gera ráð fyrir rigningu um helgina en vindurinn ætti þó að vera rólegur.
Það má gera ráð fyrir rigningu um helgina en vindurinn ætti þó að vera rólegur. Vísir/Stefán Karlsson
Útivistar- og útihátíðafólk á öllu landinu má búast við því að það verði skýjað í dag og eilítil hafgola.

Þó má gera ráð fyrir að það komi dálitlar glufur í skýjahuluna hér og þar sem hleypa geislum sólar að.

Íslendingar inn til landsins ættu þó ekki að hafa regnhlífina langt undan því Veðurstofan gerir ráð fyrir einhverjum skúrum þar. Hitinn verður nokkuð notalegur, á bilinu 10 til 15 stig.

Allir landsmenn mega þó eiga von á rigningu á morgun og að það fari að hreyfa vind. Það er spáð norðlægri átt, um 3 til 8 metrum á sekúndu. Skýjahulan þéttist og vætan verður meiri, skúrir um allt land og sums staðar samfelldari rigning meirihluta dagsins. Hitatölurnar þokast niðurávið um eina til tvær gráður.

Veðrið á mánudaginn verður svipað en styttir upp og rofar til á Suður- og Vesturlandi síðdegis. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast sunnanlands. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga



Á mánudag (frídagur verslunarmanna):

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Víða skúrir eða rigning, en styttir upp og rofar til á Suður- og Vesturlandi síðdegis. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast sunnanlands. 

Á þriðjudag:

Hægviðri, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 10 til 15 stig. 

Á miðvikudag:

Suðvestan 5-10 m/s, súld og síðan skúrir, en bjartviðri á austurhelmingi landsins. Hiti 11 til 18 stig, hlýjast á Austurlandi. 

Á fimmtudag:

Fremur hæg breytilega átt og væta með köflum í flestum landshlutum. Hiti 10 til 15 stig. 

Á föstudag:

Líklega norðanátt með skúrum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×