Erlent

63 milljarðar í móttöku flóttamanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ólíklegt er að Ungverjar séu hrifnir af nýju áætluninni. Fréttablaðið/EPA
Ólíklegt er að Ungverjar séu hrifnir af nýju áætluninni. Fréttablaðið/EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í gær tveggja ára áætlun sína í flóttamannamálum sem miðar að því að sambandið taki á móti að minnsta kosti 50.000 flóttamönnum.

Gildistíma áætlunar undanfarinna tveggja ára lauk í gær en sú áætlun gerði ráð fyrir móttöku 160.000 flóttamanna. BBC greinir frá því að tekið hafi verið á móti fimmtungi þess fjölda.

„Þetta snýst ekki um að takast á við tímabundinn vanda. Þetta snýst um hvernig við meðhöndlum eitthvert flóknasta fyrirbæri okkar tíma,“ sagði Federica Mogherini, varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, í gær.

„Þetta er hluti af átaki framkvæmdastjórnarinnar sem miðar að því að gera flóttamönnum kleift að koma hingað á löglegan og öruggan hátt frekar en að leggja líf sitt í hendur smyglara,“ bætti varaforsetinn við.

Framkvæmdastjórnin sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hún lagði til að það yrði í forgangi að dreifa úr þeim flóttamönnum sem hafi komið til Ítalíu og Grikklands fyrir gærdaginn og veita þeim skjól í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Um er að ræða 8.000 manns sem uppfylla skilyrði Evrópusambandsins.

Alls mun framkvæmdastjórnin leggja hálfan milljarð evra í verkefnið. Það samsvarar um 63 milljörðum króna.

Nokkur ríki Evrópusambandsins mótmæltu fyrri áætlun harðlega og hafa varla tekið á móti stökum flóttamanni.

Evrópudómstóllinn hafnaði kröfu Pólverja og Ungverja um að áætlunin yrði felld úr gildi fyrr í mánuðinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×