Erlent

Ekkert samkomulag nema veggurinn rísi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald og Melania Trump fögnuðu mexíkóskri arfleið á fundi í Hvíta húsinu á dögunum. Nú krefst þess fyrrnefndi að veggur skuli rísa á landamærum Mexíkó.
Donald og Melania Trump fögnuðu mexíkóskri arfleið á fundi í Hvíta húsinu á dögunum. Nú krefst þess fyrrnefndi að veggur skuli rísa á landamærum Mexíkó. Vísir/Getty
Hvíta húsið hefur heitið því að öllum samningum um áframhaldandi vernd fyrir börn innflytjenda vestanhafs fylgi krafa um hertari innflytjendalöggjöf. Þannig verður ekki samið um áframhaldandi tilvist DACA-áætlunarinnar svokölluðu nema að landamæraveggurinn milli Bandaríkjanna og Mexíkós rísi.

Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að kröfur Bandaríkjaforsetans Donald Trump í samningaviðræðunum séu meðal annars fjármögnun veggjarins, að hægt verði að vísa fólki fyrr úr landi og að ráðnir verðir þúsundir landamæravarða.

Greint var frá því í september að Trump hafi heitið því að afnema vernd fyrir fólk sem var flutt ólöglega til Bandaríkjanna sem börn í stjórnartíð sinni. Það er talið setja líf þeirra 690 þúsund einstaklinga sem fengið hafa atvinnuleyfi í Bandaríkjanum til tveggja ára í uppnám. Barack Obama, fyrrverandi forseti, kom áætluninni til framkvæmda með forsetatilskipun árið 2012. Greint var þó frá því um miðjan mánuðinn að demókratar og forsetinn hafi náð samkomulagi um áframhaldandi vernd eftir óvæntan kvöldverðarfund í Hvíta húsinu.

Nýjasta útspil forsetans kom flatt upp á þá sem snæddu með forsetanum og saka þau hann um að ganga á bak orða sinna. Ekkert hafi verið minnst á vegginn í samkomulaginu sem náðist á fundi þeirra í september. Því hefur forsetinn ætíð neitað. Veggurinn hafi verið uppi á borðinu frá upphafi.

Trump hefur gefið fulltrúadeild bandaríska þingsins, sem lýtur forystu repúblikana, hálft ár til að koma skikki á málaflokkinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×