Innlent

Hviðurnar geta farið vel yfir 40 metra á sekúndu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Veðurstofa spáir suðvestan stormi með hviðum hátt í 40 m/s fram eftir morgni.
Veðurstofa spáir suðvestan stormi með hviðum hátt í 40 m/s fram eftir morgni. Skjáskot/Veðurstofa Íslands
Veðurfræðingur ráðleggur fólki á norðanverðu og suðaustanverðu landinu að vera ekki á ferðinni í kvöld og í nótt, ef það kemst hjá því. Veðurstofa spáir suðvestan stormi með hviðum hátt í 40 m/s fram eftir morgni.

Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að ekki sé vitlaust að íbúar á svæðum þar sem veðrið gengur nú yfir bindi niður lausamuni fyrir nóttina.

„Þetta er eiginlega allt norðanvert landið og austur í Vopnafjörð, þar með talið Vestfirðir, allt þetta svæði. Þetta er náttúrulega vestanátt, hún er svolítið skæð og lúmsk.“

Gert er ráð fyrir að vindinn lægi í fyrramálið á Norðurlandi en áfram verður hvassviðri á Öræfum og á Mýrdalssandi á morgun, að sögn Þorsteins. Þá ráðleggur hann fólki norðantil að vera ekki á ferðinni í kvöld að óþörfu.

„Hviðurnar geta alveg farið vel yfir 40 metra í Öræfum en verða annars á bilinu 30-40, sem er alveg nóg til að velta hlutum, vögnum og lausamunum, og bílum jafnvel. Þannig að við ráðleggjum fólki að vera ekki mikið á ferðinni í kvöld og í nótt ef það kemst hjá því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×