Innlent

Ferðamenn beðnir um að hafa varan á næsta sólarhringinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Nær vindur stormstyrk á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðausturlandi með kvöldinu.
Nær vindur stormstyrk á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðausturlandi með kvöldinu. Vísir/Friðrik Þór
Lægðardrag á Grænlandssundi mun dýpka í dag en á móti eflist víðáttumikill hæðarhryggur yfir Íslandi. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands en þar segir að þessi tvö veðurkerfi valdi því að það hvessir mjög á landinu af vestri og nær vindur stormstyrk á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðausturlandi með kvöldinu. Vindhviður geta orðið mjög öflugar, jafnvel náð 30 til 40 m/s við fjöll á þeim slóðum. Hitatölur verða þó með ágætum miðað við árstíma og úrkoma með minnsta móti.

Ferðamenn eru beðnir að hafa varann á næsta sólarhring, því áfram verður hvassviðri eða stormur og víða rigning fyrir hádegi á morgun, þó dragi smám saman úr veðurhæð og vætu þegar líður á daginn. Á kosningadaginn er síðan spáð norðankalda með kólnandi veðri og éljum fyrir norðan og austan, en haustsól og mildara veður á Suður- og Vesturlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

N og NV 8-13 m/s og dálítil él við NA-ströndina, en léttskýjað S- og V-til. Kólnandi veður.

Á sunnudag:

Hægviðri víðast hvar og léttskýjað um morguninn og hiti kringum frostmark, en SA 5-13 og Þykknar upp fyrst SV-lands síðdegis og hlýnar.

Á mánudag:

Hæg V-læg eða breytileg átt með dálítilli vætu af og til, en þurrt að mestu NA-lands. Hiti 3 til 9 stig, mildast V-til.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir V-læga átt með vætu, en að snúist til N-lægrar áttar síðdegis, slyddu eða snjókomu og kólnandi veðri.

Á miðvikudag:

Líklega lægir, léttir víða til og frystir, en að hlýni aftur með SA-átt síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×