Kvöldflugi Icelandair frá Heathrow-flugvelli í London til Keflavíkur var aflýst vegna bilunar. Á annað hundrað manns átti bókað far með farþegaþotu flugfélagsins í kvöld en var tilkynnt um klukkan hálf níu í kvöld að seinkun yrði á fluginu.
Rétt fyrir klukkan tíu í kvöld barst svo tilkynning frá flugfélaginu að fluginu til Íslands hefði verið aflýst vegna bilunar.
Var farþegunum boðið upp á hótelgistingu í London en reiknað er með að þeir sem voru á leið heim til Íslands fari með Icelandair frá London upp úr hádegi á morgun.
Aðrir sem voru á leið til Bandaríkjanna fara líklegast með öðrum flugfélögum að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair.
Flugi Icelandair frá London aflýst vegna bilunar
Birgir Olgeirsson skrifar
