Lífið

Flúrið lifir og deyr með mér

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Dagný segir nám í húðflúrun vera krefjandi og skemmtilegt.
Dagný segir nám í húðflúrun vera krefjandi og skemmtilegt. Vísir/Eyþór
Suðurnesjamærin Dagný Lind Draupnisdóttir er að læra húðflúrun. Hún segir húðflúr geta verið þokkafull og ögrandi í senn. Þau sýni sígildar og eilífar táknmyndir en elti líka tískustrauma.

„Fyrsta húðflúrið mitt var minningartattú um pabba minn. Þegar ég fékk fréttirnar um að hann væri dáinn teiknaði ég kross og fann seinna hvernig hann varð mér þýðingarmikið tákn sem ég vildi fá flúrað á bakið,“ segir Dagný Lind Draupnisdóttir frá Sandgerði.

Dagný hefur ekki lengur tölu á húðflúrum sínum en segir eitt tattú gjarnan kalla á annað, og svo annað og annað. Stór húðflúr og svokallaðar ermar njóti mikilla vinsælda hjá báðum kynjum.Vísir/Eyþór
Síðan hafa mörg húðflúr bæst við hjá Dagnýju sem hefur ekki lengur tölu á þeim.

„Húðflúr eru oftar en ekki mjög persónuleg. Eftir fyrsta flúrið kemur oft annað, og svo annað, og annað. Djúp merking liggur að baki húðflúra hjá mörgum; það geta verið minningar eða nöfn foreldra og barna sem hverjum og einum er kærastur; jafnvel mynd af heimilishundinum. Aðrir fá sér flúr til að skreyta líkamann með fallegum myndum, táknum eða letri,“ segir Dagný og bætir við að æ fleiri velji sér stór húðflúr.

„Munstur og myndir eru háðar tískustraumum. Nú er vinsælt að tattúvera heilu ermarnar á handleggi karla og kvenna, og víkingauppruninn togar í marga. Galdrastafurinn Ægishjálmur er vinsæll sem og rúnaletur. Þá er mikið um svarthvít portrett af mönnum og dýrum, og bæði kyn vilja fá flúraðan kross eða rós á hörund sitt. Breiddin er mikil og afar fjölbreyttur hópur fólks sem vill skreyta sig með flúri.“

Aldurstakmark fyrir húðflúr er 18 ár.

„Margir koma þó til okkar sextán ára í von um tattú en við fylgjum reglum. Húðin er enn að vaxa á sextán ára unglingum og enn vantar upp á þroska til að taka ákvarðanir sem varða alla framtíð. Húðflúr situr á líkamanum um aldur og ævi.“

Svarthvítar, raunverulegar myndir af dýrum og mönnum eru nú hæstmóðins í tattútískunni, sem og rósir, krossar og orð.Vísir/Eyþór

Draumur sem rættist

Frá því Dagný var lítil hnáta hefur hún teiknað. Hún fór á listnámsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefur einnig stundað nám við Myndlistaskólann í Reykjavík.

„Undir niðri blundaði í mér draumur um að verða húðflúrari. Hins vegar eru fáar stofur sem taka inn nema og hægara sagt en gert,“ segir Dagný sem fékk langþráðan draum sinn uppfylltan í mars þegar hún fékk inni sem lærlingur á Tattoo & Skarti í Hafnarfirði, þar sem húðflúrmeistarinn Svanur Guðrúnarson sér um þjálfun hennar og kennslu.

„Námið er ótrúlega skemmtilegt og krefjandi. Maður fer hægt og rólega af stað, fylgist með meisturunum vinna og fer svo hægt og bítandi að æfa sig á vinum og vandamönnum, en alls tekur námið tvö ár. Ég hef meðal annars þurft að sækja námskeið í sótthreinsun og meðferðum sára en með einnota nálum hefur hætta á smiti og sýkingum minnkað til muna,“ segir Dagný og húðflúrun leikur í höndunum á henni.

„Ég er þegar farin að flúra minni verk, letur og fíngerðar myndir, en bíð enn með stærri húðflúr. Ég er alltaf krotandi á blað og búandi til tattú, en á Tattoo & Skart erum við ekki með uppflettimöppur með fjöldaframleiddum myndum heldur mætum óskum og hugmyndum fólks með einstöku flúri sem það sér ekki á næsta manni.“

Hér gefur að líta nokkur glæsileg húðflúr sem Dagný hefur teiknað og flúrað eftir að hún hóf nám í húðflúrun.MYND ÚR EINKASAFNI

Ögrandi og þokkafull

Dagný segist mun oftar upplifa aðdáun og jákvæðni gagnvart húðflúrum sínum.

„Það dást líka margir að því að ég þori að skreyta mig þetta mikið því maður losnar ekki svo glatt við húðflúr. Því er mikilvægt að skoða vel hver húðflúrar mann og hvernig útkoman er. Maður þarf að treysta manneskjunni sem flúrar mann því það er auðvelt að gera mistök ef ekki er farið af stað með vandvirkni að vopni.“

Oft kemur fyrir að ókunnugt fólk stoppar Dagnýju til að forvitnast um flúrin og skoða handleggi hennar.

„Heimur tattúlistar er gríðarstór og merkilegur. Húðflúr geta verið þokkafull og ögrandi, en mér finnst það fara eftir hverju og einu flúri, og þeim skilaboðum eða yfirlýsingu í þeim felst. Persónulega lít ég á mín flúr sem list. List sem lifir og deyr með mér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×