Þrífætlingarnir Stefán Pálsson skrifar 19. nóvember 2017 11:00 Vélmenni utan úr geimnum hafa lagt undir sig jörðina en piltar tveir bjóða þessum illu öflum birginn.“ Svo hljóðaði stuttaraleg lýsing á breskri sjónvarpsþáttaröð fyrir börn og unglinga, sem hóf göngu sína í Ríkissjónvarpinu í lok janúar árið 1987. Þeir voru sagðir gerðir eftir kunnri vísindaskáldsögu og ættu að gerast árið 2193. Þættirnir nefndust Þrífætlingarnir. Það má teljast kaldrifjuð ákvörðun hjá stjórnendum RÚV að hefja sýningar á Þrífætlingunum (eða The Tripods, eins og þættirnir nefndust á frummálinu) í ljósi þess að í ársbyrjun 1987 lá fyrir að framleiðslu þeirra væri hætt. Eftir gerð tveggja þáttaraða, með samtals 25 þáttum, ákvað BBC að láta staðar numið. Ástæðan var hár framleiðslukostnaður, auk þess sem Michael Grade, yfirmanni dagskrárgerðar hjá stofnuninni, var í nöp við vísindaskáldskap og taldi slíkt efni ómerkilegt. Um svipað leyti lét Grade gera hlé á gerð þáttanna um Dr. Who og bakaði sér þar með ævarandi óvild nördaheimsins. Myndaflokknum um Þrífætlingana lauk þar með í miðju kafi, við lok annarrar bókar þríleiksins og sjónvarpsáhorfendur fengu því aldrei að sjá hin dramatísku sögulok. Það var breski rithöfundurinn John Cristopher sem samdi bækurnar þrjár um Þrífætlingana á ofanverðum sjöunda áratugnum. Hann var afkastamikill höfundur og sendi frá sér fjölda bóka undir ýmsum nöfnum. Í flestum tilvikum var um að ræða vísindaskáldskap og var markhópurinn yfirleitt ungmenni. Sem fyrr segir gerast sögurnar í framtíðinni, þar sem geimverur hafa hertekið Jörðina. Helstu stórborgir eru rústir einar, en mannkynið fæst við fábreyttan sjálfsþurftarbúskap í samfélagi sem helst minnir á Evrópu miðalda. Mestöll nútímatækni er horfin úr sögunni, þó hafa stöku minjar varðveist, svo sem vasaúr og eru slíkir undragripir í miklum metum.Mannkynið heilaþvegið Þorri almennings hefur aldrei litið geimverurnar sjálfar augum, heldur einungis séð risavaxin og þrífætt farartæki þeirra sem arka um heiminn og halda hinum innfæddu í skefjum. Eru þrífætlingar þessir augljós vísun í sams konar vélar innrásarliðsins í sögu H.G. Wells, Innrásinni frá Mars. Raunar þurfa geimverurnar lítið fyrir málunum að hafa, því allur mótþrói er brotinn aftur með heilaþvotti. Við fjórtán ára aldurinn er hvert mannsbarn tekið af geimverunum og það „markað“, með búnaði sem er komið fyrir á höfðinu og brýtur niður allt frumkvæði, drifkraft og frelsisþrá. Sagan hefst þegar tveir enskir piltar á fjórtánda ári komast í kynni við flakkara nokkurn, en ekki er óþekkt að heilaþvottaraðgerðin mistakist og viðkomandi sturlist og leggist í flakk. Maðurinn dularfulli reynist þó enginn útigangsmaður heldur útsendari uppreisnarmanna – fólks sem sloppið hefur undan geimverunum og skipuleggur á laun hersveitir til að undirbúa uppreisn. Piltarnir tveir, Will og Henry, ákveða að stinga af og leita uppi búðir uppreisnarmanna á „Hvíta fjallinu“ í svissnesku Ölpunum, en af því dregur fyrsta bók sagnaflokksins nafn sitt. Á leiðinni kynnast þeir frönskum pilti, Jean-Paul, sem slæst í hópinn. Bókinni og fyrri sjónvarpsþáttaröðinni lýkur báðum þar sem félagarnir þrír ná takmarki sínu og komast í raðir andspyrnumanna eftir æsilegan eltingaleik við Þrífætlinga. Synd væri að segja að atburðarás þessa fyrsta hluta sögunnar væri hröð og einkum kvörtuðu yngri áhorfendur þátttanna yfir löngum og tilgangslitlum senum þar sem félagarnir vinna landbúnaðarstörf eða þramma langar vegalengdir í sveitum Frakklands. Til að draga úr flóknum tæknibrellum gripu handritshöfundar einnig til þess bragðs að skrifa inn í söguna hersveitir skipaðar mönnum sem sáu að mestu um eftirförina, fyrir vikið voru sjálfir Þrífætlingarnir fremur lítt sýnilegir í þáttunum. Jafnframt var í sjónvarpsþáttunum bætt við nokkrum kvenpersónum, stúlkum sem unglingspiltarnir verða ástfangnir af, en í bókum Johns Christopher komu nær engar konur við sögu. Þrátt fyrir göngutúrana endalausu og leiðigjarna vinnu á vínekrunum, fönguðu sjónvarpsþættirnir athygli fjölmargra áhorfenda sem biðu spenntir eftir næstu þáttaröð. Hún nefndist Gullborgin og fylgdi í grófum dráttum fléttunni í annarri bók þríleiksins, Borginni úr gulli og blýi. Í þeirri sögu nær vísindaskáldskapurinn sér á flug og lesendur fá loks að fræðast um eðli geimveranna.Djöfulleg áform Geimverurnar hafast við í þremur ógnarstórum borgum, sem eru eins konar gylltir píramídar. Ein þeirra er í námunda við rústir Berlínar, önnur í grennd við Peking og sú þriðja í Mið-Ameríku. Þangað eru í sífellu fluttir stórir hópar vaskra íþróttamanna og fagurra stúlkna og þykja það eftirsóknarverð örlög, þótt enginn snúi aftur. Einsetja uppreisnarmenn sér að koma flugumönnum sínum í þennan hóp til að afla upplýsinga og tekst Will að hreppa hnossið við annan mann með því að sigra í íþróttakeppni. Í ljós kemur að unga fólksins bíður ekkert sældarlíf í gullborginni. Í skáldsögunni eru allar ungu konurnar drepnar og þær gerðar að skrautgripum fyrir geimverurnar að dást að, en piltarnir verða að þrælum. Aðdráttaraflið innan borgarinnar er tvöfalt sterkara en utan veggja og loftið bráðdrepandi án öndunargrímu. Fyrir vikið deyja flestir þrælanna innan tveggja ára. Í sjónvarpsútgáfunni er dregið úr hryllingnum og hlutskipti þrælanna gert allbærilegt. Annað frávik er á milli bókanna og sjónvarpsþáttanna varðandi útlit geimveranna. Í bókinni eru þær í laginu eins og risastórar umferðarkeilur á fótum, en í þáttunum voru þær þrífættar með risastórt höfuð í stað búks, líkt og smækkuð útgáfa af farartækjum sínum. Í báðum útgáfum kemst Will á snoðir um að geimverurnar hyggist breyta loftslagi Jarðarinnar að sínum þörfum og þar með þurrka út allt líf á plánetunni. Honum tekst að sleppa við illa raun og hyggst flytja félögum sínum í andspyrnunni þessar mikilvægu fregnir, en þegar komið er að Hvíta fjallinu bíða hans einungis brunarústir búða þeirra. „Var þetta þá allt til einskis?“ – spyr unglingurinn sig í örvilnan.Stutt gaman Og með þessa spurningu voru bresk ungmenni skilin eftir í lausu lofti síðla árs 1985 og íslenskir sjónvarpsáhorfendur sömuleiðis tveimur árum síðar. Vonbrigði beggja hópa urðu þau sömu þegar fréttist að það yrði ekkert framhald. Sjónvarpið byði engin svör um afdrif Wills, uppreisnarmanna og Jarðarbúa allra. Margir upplifðu sár persónuleg svik. Höfundur þessarar greinar var í þeim hópi. Meðan flest ungmenni létu sér nægja að bölva skúnknum Michael Grade, gripu þau lausnamiðaðri til þess ráðs að lesa einfaldlega lokabókina, en hana mátti finna á fáeinum íslenskum bókasöfnum. Í lokahlutanum kemur í ljós að andspyrnuhreyfingin lifir enn og eflist að krafti. Meðlimir hennar uppgötva að alkóhól getur lamað geimverurnar og með þá vitneskju að vopni tekst þeim að sigra tvær af þremur gullborgunum og ráða niðurlögum óvinanna. Sú þriðja vinnst eftir harðan bardaga þar sem pilturinn Henry fórnar lífi sínu til að tryggja sigurinn og er hylltur eftir dauðann. Geimverurnar á Jörðinni eru allar dauðar og yfirboðarar þeirra játa sig sigraða og tortíma því sem eftir er af gullborgunum með loftárásum, væntanlega til að hindra að mennirnir nái að tileinka sér tækni þeirra. Mannkynið réttir hratt úr kútnum og tekst á undraskjótum tíma að endurheimta fyrra tæknistig. Þó eru endalokin ekki að öllu leyti hamingjurík, því draumsýn leiðtoga uppreisnarmanna um að reisa nýtt og samhent samfélag með bræðralagi allra manna fer út um þúfur. Þess í stað hefjast þegar flokkadrættir og mannkynið skiptir sér aftur niður í þjóðir og ríki. Sú ákvörðun BBC að slá af þættina um Þrífætlingana varð höfundinum John Christopher talsverð vonbrigði. Hann ákvað þó að nýta sér hinar nýju vinsældir sagnaflokksins árið 1988 og bætti við fjórðu sögunni, sem rakti komu Þrífætlinganna til Jarðar og upphaf andspyrnuhreyfingarinnar. Auðvelt er að túlka þá sögu sem gagnrýni á innantómt sjónvarpsgláp, en samkvæmt henni náðu geimverurnar völdum á Jörðinni með því að dáleiða drjúgan hluta heimsbyggðarinnar með sérstökum hljóðmerkjum sem leikin voru undir vinsælum sjónvarpsþáttum. Ber flestum saman um að þessi síðasta bók sé langlökust og er henni oftast sleppt í heildarútgáfum Þrífætlingaritraðarinnar. Á liðnum árum hafa borist fregnir af áhuga kvikmyndagerðarmanna á að koma ævintýrinu um Þrífætlingana á hvíta tjaldið. Hvort þær áætlanir ná fram að ganga er ómögulegt að spá um – en ef til kemur, mælir höfundur þessarar greinar sterklega með því að sagan verði kláruð í einni mynd í stað þess að treysta á framhaldið?… Saga til næsta bæjar Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Lífið Fleiri fréttir Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Sjá meira
Vélmenni utan úr geimnum hafa lagt undir sig jörðina en piltar tveir bjóða þessum illu öflum birginn.“ Svo hljóðaði stuttaraleg lýsing á breskri sjónvarpsþáttaröð fyrir börn og unglinga, sem hóf göngu sína í Ríkissjónvarpinu í lok janúar árið 1987. Þeir voru sagðir gerðir eftir kunnri vísindaskáldsögu og ættu að gerast árið 2193. Þættirnir nefndust Þrífætlingarnir. Það má teljast kaldrifjuð ákvörðun hjá stjórnendum RÚV að hefja sýningar á Þrífætlingunum (eða The Tripods, eins og þættirnir nefndust á frummálinu) í ljósi þess að í ársbyrjun 1987 lá fyrir að framleiðslu þeirra væri hætt. Eftir gerð tveggja þáttaraða, með samtals 25 þáttum, ákvað BBC að láta staðar numið. Ástæðan var hár framleiðslukostnaður, auk þess sem Michael Grade, yfirmanni dagskrárgerðar hjá stofnuninni, var í nöp við vísindaskáldskap og taldi slíkt efni ómerkilegt. Um svipað leyti lét Grade gera hlé á gerð þáttanna um Dr. Who og bakaði sér þar með ævarandi óvild nördaheimsins. Myndaflokknum um Þrífætlingana lauk þar með í miðju kafi, við lok annarrar bókar þríleiksins og sjónvarpsáhorfendur fengu því aldrei að sjá hin dramatísku sögulok. Það var breski rithöfundurinn John Cristopher sem samdi bækurnar þrjár um Þrífætlingana á ofanverðum sjöunda áratugnum. Hann var afkastamikill höfundur og sendi frá sér fjölda bóka undir ýmsum nöfnum. Í flestum tilvikum var um að ræða vísindaskáldskap og var markhópurinn yfirleitt ungmenni. Sem fyrr segir gerast sögurnar í framtíðinni, þar sem geimverur hafa hertekið Jörðina. Helstu stórborgir eru rústir einar, en mannkynið fæst við fábreyttan sjálfsþurftarbúskap í samfélagi sem helst minnir á Evrópu miðalda. Mestöll nútímatækni er horfin úr sögunni, þó hafa stöku minjar varðveist, svo sem vasaúr og eru slíkir undragripir í miklum metum.Mannkynið heilaþvegið Þorri almennings hefur aldrei litið geimverurnar sjálfar augum, heldur einungis séð risavaxin og þrífætt farartæki þeirra sem arka um heiminn og halda hinum innfæddu í skefjum. Eru þrífætlingar þessir augljós vísun í sams konar vélar innrásarliðsins í sögu H.G. Wells, Innrásinni frá Mars. Raunar þurfa geimverurnar lítið fyrir málunum að hafa, því allur mótþrói er brotinn aftur með heilaþvotti. Við fjórtán ára aldurinn er hvert mannsbarn tekið af geimverunum og það „markað“, með búnaði sem er komið fyrir á höfðinu og brýtur niður allt frumkvæði, drifkraft og frelsisþrá. Sagan hefst þegar tveir enskir piltar á fjórtánda ári komast í kynni við flakkara nokkurn, en ekki er óþekkt að heilaþvottaraðgerðin mistakist og viðkomandi sturlist og leggist í flakk. Maðurinn dularfulli reynist þó enginn útigangsmaður heldur útsendari uppreisnarmanna – fólks sem sloppið hefur undan geimverunum og skipuleggur á laun hersveitir til að undirbúa uppreisn. Piltarnir tveir, Will og Henry, ákveða að stinga af og leita uppi búðir uppreisnarmanna á „Hvíta fjallinu“ í svissnesku Ölpunum, en af því dregur fyrsta bók sagnaflokksins nafn sitt. Á leiðinni kynnast þeir frönskum pilti, Jean-Paul, sem slæst í hópinn. Bókinni og fyrri sjónvarpsþáttaröðinni lýkur báðum þar sem félagarnir þrír ná takmarki sínu og komast í raðir andspyrnumanna eftir æsilegan eltingaleik við Þrífætlinga. Synd væri að segja að atburðarás þessa fyrsta hluta sögunnar væri hröð og einkum kvörtuðu yngri áhorfendur þátttanna yfir löngum og tilgangslitlum senum þar sem félagarnir vinna landbúnaðarstörf eða þramma langar vegalengdir í sveitum Frakklands. Til að draga úr flóknum tæknibrellum gripu handritshöfundar einnig til þess bragðs að skrifa inn í söguna hersveitir skipaðar mönnum sem sáu að mestu um eftirförina, fyrir vikið voru sjálfir Þrífætlingarnir fremur lítt sýnilegir í þáttunum. Jafnframt var í sjónvarpsþáttunum bætt við nokkrum kvenpersónum, stúlkum sem unglingspiltarnir verða ástfangnir af, en í bókum Johns Christopher komu nær engar konur við sögu. Þrátt fyrir göngutúrana endalausu og leiðigjarna vinnu á vínekrunum, fönguðu sjónvarpsþættirnir athygli fjölmargra áhorfenda sem biðu spenntir eftir næstu þáttaröð. Hún nefndist Gullborgin og fylgdi í grófum dráttum fléttunni í annarri bók þríleiksins, Borginni úr gulli og blýi. Í þeirri sögu nær vísindaskáldskapurinn sér á flug og lesendur fá loks að fræðast um eðli geimveranna.Djöfulleg áform Geimverurnar hafast við í þremur ógnarstórum borgum, sem eru eins konar gylltir píramídar. Ein þeirra er í námunda við rústir Berlínar, önnur í grennd við Peking og sú þriðja í Mið-Ameríku. Þangað eru í sífellu fluttir stórir hópar vaskra íþróttamanna og fagurra stúlkna og þykja það eftirsóknarverð örlög, þótt enginn snúi aftur. Einsetja uppreisnarmenn sér að koma flugumönnum sínum í þennan hóp til að afla upplýsinga og tekst Will að hreppa hnossið við annan mann með því að sigra í íþróttakeppni. Í ljós kemur að unga fólksins bíður ekkert sældarlíf í gullborginni. Í skáldsögunni eru allar ungu konurnar drepnar og þær gerðar að skrautgripum fyrir geimverurnar að dást að, en piltarnir verða að þrælum. Aðdráttaraflið innan borgarinnar er tvöfalt sterkara en utan veggja og loftið bráðdrepandi án öndunargrímu. Fyrir vikið deyja flestir þrælanna innan tveggja ára. Í sjónvarpsútgáfunni er dregið úr hryllingnum og hlutskipti þrælanna gert allbærilegt. Annað frávik er á milli bókanna og sjónvarpsþáttanna varðandi útlit geimveranna. Í bókinni eru þær í laginu eins og risastórar umferðarkeilur á fótum, en í þáttunum voru þær þrífættar með risastórt höfuð í stað búks, líkt og smækkuð útgáfa af farartækjum sínum. Í báðum útgáfum kemst Will á snoðir um að geimverurnar hyggist breyta loftslagi Jarðarinnar að sínum þörfum og þar með þurrka út allt líf á plánetunni. Honum tekst að sleppa við illa raun og hyggst flytja félögum sínum í andspyrnunni þessar mikilvægu fregnir, en þegar komið er að Hvíta fjallinu bíða hans einungis brunarústir búða þeirra. „Var þetta þá allt til einskis?“ – spyr unglingurinn sig í örvilnan.Stutt gaman Og með þessa spurningu voru bresk ungmenni skilin eftir í lausu lofti síðla árs 1985 og íslenskir sjónvarpsáhorfendur sömuleiðis tveimur árum síðar. Vonbrigði beggja hópa urðu þau sömu þegar fréttist að það yrði ekkert framhald. Sjónvarpið byði engin svör um afdrif Wills, uppreisnarmanna og Jarðarbúa allra. Margir upplifðu sár persónuleg svik. Höfundur þessarar greinar var í þeim hópi. Meðan flest ungmenni létu sér nægja að bölva skúnknum Michael Grade, gripu þau lausnamiðaðri til þess ráðs að lesa einfaldlega lokabókina, en hana mátti finna á fáeinum íslenskum bókasöfnum. Í lokahlutanum kemur í ljós að andspyrnuhreyfingin lifir enn og eflist að krafti. Meðlimir hennar uppgötva að alkóhól getur lamað geimverurnar og með þá vitneskju að vopni tekst þeim að sigra tvær af þremur gullborgunum og ráða niðurlögum óvinanna. Sú þriðja vinnst eftir harðan bardaga þar sem pilturinn Henry fórnar lífi sínu til að tryggja sigurinn og er hylltur eftir dauðann. Geimverurnar á Jörðinni eru allar dauðar og yfirboðarar þeirra játa sig sigraða og tortíma því sem eftir er af gullborgunum með loftárásum, væntanlega til að hindra að mennirnir nái að tileinka sér tækni þeirra. Mannkynið réttir hratt úr kútnum og tekst á undraskjótum tíma að endurheimta fyrra tæknistig. Þó eru endalokin ekki að öllu leyti hamingjurík, því draumsýn leiðtoga uppreisnarmanna um að reisa nýtt og samhent samfélag með bræðralagi allra manna fer út um þúfur. Þess í stað hefjast þegar flokkadrættir og mannkynið skiptir sér aftur niður í þjóðir og ríki. Sú ákvörðun BBC að slá af þættina um Þrífætlingana varð höfundinum John Christopher talsverð vonbrigði. Hann ákvað þó að nýta sér hinar nýju vinsældir sagnaflokksins árið 1988 og bætti við fjórðu sögunni, sem rakti komu Þrífætlinganna til Jarðar og upphaf andspyrnuhreyfingarinnar. Auðvelt er að túlka þá sögu sem gagnrýni á innantómt sjónvarpsgláp, en samkvæmt henni náðu geimverurnar völdum á Jörðinni með því að dáleiða drjúgan hluta heimsbyggðarinnar með sérstökum hljóðmerkjum sem leikin voru undir vinsælum sjónvarpsþáttum. Ber flestum saman um að þessi síðasta bók sé langlökust og er henni oftast sleppt í heildarútgáfum Þrífætlingaritraðarinnar. Á liðnum árum hafa borist fregnir af áhuga kvikmyndagerðarmanna á að koma ævintýrinu um Þrífætlingana á hvíta tjaldið. Hvort þær áætlanir ná fram að ganga er ómögulegt að spá um – en ef til kemur, mælir höfundur þessarar greinar sterklega með því að sagan verði kláruð í einni mynd í stað þess að treysta á framhaldið?…
Saga til næsta bæjar Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Lífið Fleiri fréttir Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Sjá meira