Sveinn Gestur Tryggvason hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að hafa orðið Arnari Jóni Aspar að bana í júní síðastliðnum. Dómurinn var upp kveðinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í nóvember og komu um tuttugu vitni fyrir dóminn. Þeirra á meðal Sveinn Gestur, Jón Trausti Lúthersson og fjögur til viðbótar sem fóru ásamt fyrrnefndum tveim á heimili Arnars í Mosfellsdal kvöldið örlagaríka.
Sveinn Gestur neitaði því alfarið að hafa ráðist á Arnar að fyrra bragði og sagði Jón Trausta bera ábyrgð á mestum hlusta áverkanna. Jón Trausti neitaði sök.
Sveinn Gestur var viðstaddur dómsuppkvaðninguna. Að lokinni dómsuppsögu var Sveinn Gestur leiddur fyrir dómara þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum þangað til hann hefur afplánun. Sveinn Gestur hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan árásin átti sér stað þann 7. júní.
Fastlega má búast við því að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Saksóknari hafði farið fram á fjögurra til fimm ára fangelsi yfir Sveini Gesti.
Guðjón St. Marteinsson kvað upp dóminn í héraði í morgun. Dómurinn hefur ekki verið birtur á vefsíðu dómstólanna.
Sveinn Gestur í sex ára fangelsi

Tengdar fréttir

Segir Jón Trausta bera ábyrgð á áverkum Arnars
Sveinn Gestur Tryggvason sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða Arnars Jónssonar Aspar, neitar alfarið sök í málinu. Aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Krefst fjögurra til fimm ára fangelsis yfir Sveini Gesti
Ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða.

Jón Trausti segist hvorki hafa staðið hjá né hvatt Svein Gest áfram
Jón Trausti Lúthersson segist ekki hafa veitt Arnari Jónssyni Aspar þá áverka sem leiddu hann til dauða. Sveinn Gestur Tryggvason hafði fyrr í dag sagt fyrir dómi að Jón Trausti bæri ábyrgð á áverkunum.

„Þetta átti ekki að enda svona“
Allir samferðamenn Sveins Gests segja Arnar hafa ráðist að fyrra bragði á Svein Gest.