Innlent

Flugfreyjur felldu samning við WOW

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Flugfreyjufélagið felldi kjarasamning sem undirritaður var þann 5. desember síðastliðinn.
Flugfreyjufélagið felldi kjarasamning sem undirritaður var þann 5. desember síðastliðinn. Wow air
Kjarasamningur milli Flugfreyjufélags Íslands og WOW air ehf. var felldur í rafrænni atkvæðagreiðslu í vikunni. Samningurinn var undirritaður þann 5. desember og hófst atkvæðagreiðsla á mánudag. Henni lauk í dag.

496 voru á kjörskrá og greiddu 311 atkvæði, eða 62,7 prósent. 143 greiddu atkvæði með samningnum eða 45,98 prósent. 165 greiddu atkvæði gegn samningnum eða 53,73 prósent. Samningurinn hefur því verið felldur.

„Núna hafa félagsmenn talað og meirihluti þeirra hefur fellt samninginn og við verðum að sjálfsögðu að lúta þeirri niðurstöðu og halda áfram þar sem frá var horfið,“ segir Orri Þrastarson, varaformaður Flugfreyjufélags Íslands, í samtali við Vísi.

Hann segist ekki vita nákvæmlega hvenær gengið verður aftur að samningaborðinu, en samningar hafa verið lausir í meira en ár. Fyrst þurfi að vera ljóst hvað félagsmönnum finnist betur mega fara í samningnum.

Flugfreyjur hjá WOW air hugðust kljúfa sig frá Flugfreyjufélaginu og stofna nýtt stéttarfélag, Samband íslenskra flugliða, fyrr í vetur. Ástæðan var sú að þeim þótti málefni sín hafa lítið vægi innan Flugfreyjufélagsins. Fyrirhuguðum stofnfundi var hins vegar frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×