Lífið fékk að fylgjast með þessari þýðingarmiklu stund í lífi Ellýjar en hún var búin að leita lengi að leiðum til að annað hvort fjarlægja húðflúrið eða fela það.

Mikil meining í flúrinu
Ellý mætti á húðflúrstofuna Reykjavík Ink klukkan 14.00 í gær, þar sem húðflúrið var mátað á hana. Húðflúrið hannaði hún í samstarfi við húðflúrmeistarann Tony Skate, en Ellý vildi hafa mikla og djúpa þýðingu á bak við flúrið. Hún valdi trúarlega táknið mandala sem meginþema í gegnum tattúið en í því má einnig sjá galdrastafinn Vegvísi, sem tryggir að Ellý muni aldrei týnast eða fara út af brautinni í lífinu.„Flúrið þarf að hafa mikla meiningu fyrir mér,“ segir Ellý, sem er ein af okkar þekktustu spákonum og trúir staðfastlega á hið yfirnáttúrulega. Því var hún heppin að fá húðflúrarann Tony Skate til að flúra sig, þar sem hann trúir einnig mikið á andlegu hliðina. Hann lagði mikla vinnu í flúrið og bað til að mynda um fæðingardag og -stað Ellýjar til að persónugera tattúið eins mikið og hægt er.



Gamla flúrið eins og slæmt stefnumót
Þegar klukkan var að ganga 21.00 í gærkvöldi var flúruninni lokið og endaspretturinn var vægast sagt tilfinningaþrunginn fyrir Ellý.„Þetta er eins og endurfæðing. Ef gamla flúrið var eins og slæmt stefnumót, þá er nýja flúrið eins og farsælt hjónaband,“ segir Ellý og bætir við hve þakklát hún sé starfsfólki Reykjavík Ink.



