Innlent

Útiskemmtanir víða um land þegar jólin verða kvödd

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá þrettándabrennunni í Grafarvogi á síðasta ári.
Frá þrettándabrennunni í Grafarvogi á síðasta ári. Vísir/ernir
Jólin verða kvödd í dag og af því tilefni verða þrettándabrennur haldnar víða um land. Alls verða þrjár brennur á höfuðborgarsvæðinu.

Þrettándi og síðasti dagur jóla er í dag, þegar Kertasníkir, síðastur jólasveina, fer frá mannabyggðum aftur til fjalla. Að venju verða haldnar útiskemmtanir í flestum sveitarfélögum landsins þar sem kveikt er upp í brennu, dansað og sungið og álfar, tröll og jólasveinar koma fram.

Þrettándabrennur verða haldnar á þremur stöðum í Reykjavík í kvöld. Í Vesturbænum hefst þrettándahátíð klukkan 18 við Melaskóla en þar leiða grunnskólanemar fjöldasöng og gengið verður að brennunni á Ægissíðu. Borinn verður eldur að kestinum klukkan 18:30 og flugeldasýning hefst klukkan 18:45.

Blysför hefst klukkan 17:55 við Gufunesbæ í Grafarvogi og flugeldasýning hefst klukkan 18.30.

Þá munu Grafarholtsbúar safnast saman við Guðríðarkirkju klukkan 18.30 og leggja af stað í blysför klukkan 18.45 með Skólahljómsveit Grafarvogs í broddi fylkingar.

Kveikt verður í brennu klukkan 19:15 og dagskrá lýkur með flugeldasýningu klukkan 20.

Þá verður þrettándagleði á Ásvöllum í Hafnarfirði klukkan 17, neðan Holtahverfis við Leirvog í Mosfellsbæ klukkan 18, við þyrlupallinn á Jaðarsbökkum á Akranesbæ klukkan 17 og svo mætti lengi telja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×