Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen hefur verið ákærður fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall. Saksóknarar segja morðið hafa verið skipulagt en hann er grunaður um að hafa myrt Wall í kafbáti sínum í ágúst. Hann er þar að auki ákærður fyrir kynferðisbrot, að vanvirða lík og að brjóta öryggisreglur siglinga.
Madsen á ævilanga fangelsisvist yfir höfði sér.
Í tilkynningu frá lögreglunni í Kaupmannahöfn segir að morðið hafi verið skipulagt og undirbúið. Enn sé ekki vitað hvernig hann hafi framið morðið en mögulegt sé að Madsen hafi skorið Wall á háls eða kyrkt hana.
Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen segir að sönnunargögn í málinu verði opinberuð fyrir dómi en ekki í fjölmiðlum. Þó málið hafi vakið gífurlega athygli.
Peter Madsen situr nú í gæsluvarðhaldi sem mun gilda til 7. febrúar. Þá mun ákæruvaldið leggja fram að hann muni sitja áfram í varðhaldi þar til dómur verði kveðinn upp í málinu. Aðalmeðferð málsins á að hefjast þann 8. mars og búist er við því að dómsuppkvaðning verði þann 25. apríl.
Blaðamannafundur verður haldinn seinna í dag.

