Handbolti

Eignaðist barn 16. desember og spilaði í Olís deild kvenna í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir fagnar sigri með Fram á síðustu árum.
Steinunn Björnsdóttir fagnar sigri með Fram á síðustu árum. Vísir/Hanna
Steinunn Björnsdóttir, besti leikmaður Olís deildar kvenna á síðasta tímabili, er mætt aftur í slaginn með Íslandsmeisturum Fram.

Steinunn spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu í kvöld þegar Fram mætti Haukum í 13. umferð Olís-deildar kvenna. Um mikinn dramaleik var að ræða þar sem Haukar skoruðu fjögur síðustu mörkin og lönduðu sigri 24-23.

Steinunn eignaðist barn 16. desember eða fyrir aðeins 29 dögum. Hún er því að spila sinn fyrsta leik í efstu deild innan við mánuði eftir fæðingu.

Steinunn er komin í gott form og sýndi það í leiknum í kvöld og þá sérstaklega í vörninni þar sem hún var að stela boltum og verja skot.

Þetta er gríðarlega stórar fréttir fyrir Framliðið enda eru Safarmýrarkonur að fá til baka lykilmann úr Íslandsmeistaraliðinu í fyrra.

Steinunn tók þrennuna á síðasta tímabili því auk þess að leikmenn hafi valið hana besta þá var einnig valin mikilvægasti leikmaðurinn af þjálfurum deildarinnar og var auk þess kosin besti varnarmaður deildarinnar.

Náði að komast í form í jólafríinu

Steinunn sagðist í viðtali eftir leik ekki hafa búist við því að geta spilað fyrsta leik eftir áramót en meðgangan gekk vel og hefur hún getað æft vel síðan hún átti. Steinunn sem átti fyrir tímann var sett 2. janúar svo það var ennþá betra að litla stelpan var tilbúin í heiminn og allt gekk að óskum fyrir Steinunni sem náði að koma sér í gott form í jólafríinu. 

„Meðgangan gekk vel, ég átti fyrir tímann og ég æfði vel, átti reyndar ekki von á að ná fyrsta leik eftir áramót en ég er glöð að vera komin tilbaka. Ég er kannski ekki alveg komin í mitt gamla form, það er ennþá smá í það. Ég var í varnarskiptingu í dag svo ég náði góðri hvíld inná milli, vonandi kemur þetta bara tímanum“ 

„Ég hef svo gaman að þessu, ég væri auðvitað ekki í þessu ef mér þætti þetta ekki gaman. Minn styrkleiki er líka að vera ánægð og peppa alla og ég hef líka gaman að því.“ sagði Steinunn að lokum en það sást vel á vellinum í dag, leikgleðin var mikil og naut hún þess að vera komin aftur.  

Fréttin var uppfærð að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×