
Veiðigjald er ekki skattur heldur afnotagjald
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir: „Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu.“ [ii] Í túlkun ráðherra og stjórnarþingmanna undanfarið á þessu ákvæði hefur þetta verið lagt út sem lækkun veiðigjalda með tilliti til „afkomu“; jafnvel afkomu hverrar útgerðar eða a.m.k. útgerðarhópa.
Varhugaverð braut
Hér er farið út á varhugaverða braut af mörgum ástæðum. Slík afkomutenging verður ávallt umdeilanleg, upphaf ágreinings sem mun grafa undan veiðigjaldskerfinu í sífellu þar til fátt verður eftir. Brugðist verður við kveinstöfum með því að slá af gjaldinu, fyrst hjá Jóni en svo líka fyrir séra Jón. Leiðir til að koma útgerðum undir lægri gjöldin munu blasa við, svo sem uppskipting fyrirtækja í misarðbærar einingar. Útgerðir munu fá „framsóknarlag“ svo vísað sé til fyrirbæris fyrr á árum þegar sagað var framan af stefni fiskiskipa til að koma þeim í hentugra hólf réttinda. Hvað gerist við leiguframsal kvóta frá útgerð með lægra veiðigjald til annarrar í hærri gjaldflokki?
Kjarni málsins er sá að veiðigjald er ekki og á ekki að vera skattur, allra síst slíkur sem lagður er á samkvæmt efnum og ástæðum. Veiðigjald er enginn tekjuskattsauki. Það er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða sameignarauðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það eftir afkomu hverrar útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald sem er skilgreint sem síbreytilegur skattur verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi sem grunar að þjóðin sé hlunnfarin, hlustandi á fréttir um drjúgar arðgreiðslur til eigenda útgerðanna.
Eðlilegir viðskiptahættir
Innan þess þjóðskipulags sem við búum við er eðlilegast að útgerðin ákvarði veiðigjaldið sjálf með því að kaupa eða leigja aflaheimildirnar af eigandanum, þjóðinni, á frjálsum samkeppnismarkaði. Þá aðlagast gjaldið sjálfkrafa því hvernig árar í sjávarútvegi hverju sinni og tekur þannig mið af „efnum og ástæðum“ útvegarins í heild, en án pólitískra inngripa. Breytingu í þessa veru má koma á í áföngum með fyrningarleiðinni svokölluðu. [iii] En er ekki hætta á að hinir stóru og sterku hrifsi til sín allar aflaheimildir séu þær seldar á almennum markaði? Við því er hægt að setja ýmsar skorður og beita mótvægisaðgerðum. Þannig mætti t.d. láta tekjur af sölu aflaheimilda renna að drjúgum hluta til þeirra byggða sem eiga mest undir fiskafla svo og til uppbyggingar innviða í dreifðum byggðum landsins.
Vinstri-hægri
Hvers vegna skýtur slík hugmynd um ríkisstýrð og afkomutengd veiðigjöld upp kollinum nú hjá vinstri-hægri stjórn? Það er ein af furðum íslenskra stjórnmála að markaðsleiðir eiga nokkuð jafnt undir högg að sækja hjá þeim sem eru lengst til hægri svo og þeim sem eru á hinum kantinum. Látinn stjórnmálaforingi skýrði þetta þannig að vinstri-hægri ásinn væri í raun skeifulaga; stutt væri á milli endanna. Erum við að upplifa það nú?
Í lokin má minna á að 83% þeirra sem afstöðu tóku voru fylgjandi því að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign í stjórnarskrá. Stjórnlagaráð gerði til tillögu í þeim efnum sem öðrum. Enn situr þó við sama.
[i] Í 4. gr. laga nr. 66 1945 hefst á þessari setningu: „Útsvar skal leggja á eftir efnum og ástæðum.“
[ii] Sjá https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/
[iii] Sjá t.d. https://thorkellhelgason.is/?p=2555.
Höfundur sat í stjórnlagaráði.
Skoðun

Orðhengilsháttur og lygar
Elín Erna Steinarsdóttir skrifar

Fjögurra daga vinnuvika – nýr veruleiki?
Sigvaldi Einarsson skrifar

Ráðherra gengur fram án laga
Svanur Guðmundsson skrifar

Hagkvæmur kostur utan friðlands
Jóna Bjarnadóttir skrifar

Gagnsæi og inntak
Halldóra Lillý Jóhannsdóttir skrifar

Sumargjöf
Þórunn Sigurðardóttir skrifar

Hannað fyrir miklu stærri markaði
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Grafarvogur framtíðar verður til
Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Málþófið um veiðigjöldin vekur miskunnsama Samverja
Sigurjón Þórðarson skrifar

Menntastefna 2030
Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Ágætu fyrrum samstarfsaðilar á Þjóðminjasafni Íslands
Uggi Jónsson skrifar

Ferðamannaþorpin - Náttúruvá
Þóra B. Hafsteinsdóttir skrifar

Vonarsvæði fyrir framtíðina – ábyrgð stjórnvalda kallar á verndun
Huld Hafliðadóttir,Heimir Harðarson skrifar

Laxaharmleikur
Jóhannes Sturlaugsson skrifar

Lýðræðið í skötulíki!
Lilja Rafney Magnúsdóttir skrifar

Stærðfræðikennari sem kann ekki að reikna? (Og getur ekki lært það!)
Brynjólfur Þorvarðsson skrifar

Íslendingar greiða sama hlutfall útgjalda í mat og Norðurlöndin
Margrét Gísladóttir skrifar

Til varnar jafnlaunavottun
Magnea Marinósdóttir skrifar

Heimaþjónusta og velferðartækni: Lykillinn að sjálfbæru heilbrigðiskerfi
Auður Guðmundsdóttir skrifar

Barnaræninginn Pútín
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar

Um þjóð og ríki
Gauti Kristmannsson skrifar

Málfrelsi og mörk þess á vettvangi lýðræðisins
Helga Vala Helgadóttir skrifar

Sjókvíaeldi á Íslandi fjarstýrt með gervigreind frá Noregi
Ingólfur Ásgeirsson skrifar

Hvers vegna skipta hagsmunir verslanakeðja meira máli en öryggi barna í Ásahverfi Reykjanesbæ?
Ólafur Ívar Jónsson skrifar

Kjarnorkuákvæðið: Neyðarhemill en ekki léttvægt leikfang popúlista
Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Stjórnarandstaðan er vannýtt auðlind
Jón Daníelsson skrifar

Ef Veðurstofan spáði vitlausu veðri í 40 ár, væri það bara í lagi?
Björn Ólafsson skrifar

Hægri sósíalismi
Jón Ingi Hákonarson skrifar

5 ára vegferð að skóla framtíðarinnar – eða ekki!
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar