New York Times greindi frá því í dag að rannsakendur Roberts Mueller, sérstaka rannsakandans sem rannsakar meint samráð forsetaframboðs Trump við Rússa og hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar, hefðu rætt við Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, í fleiri klukkustundir í síðustu viku. Sessions er fyrsti meðlimur ríkisstjórnar Trump sem hefur gefið Mueller skýrslu.
Nú hefur blaðið eftir heimildarmönnum sínum að Comey hafi rætt við rannsakendurna í fyrra. Viðtalið hafi aðallega snúist um minnisblöð sem Comey hélt um það sem hann taldi óviðeigandi samskipti Trump við sig í fyrra. Í eitt skipti taldi Comey að Trump hefði beðið sig um að hætta rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa sínum.

Sessions er talinn vera lykilvitni um bæði atriði. Hann var bæði háttsettur starfsmaður framboðsins þegar meint samráð við Rússa á að hafa átt sér stað og kom nærri ákvörðun Trump um að reka Comey. Sessions lýsti sig vanhæfan til að fjalla um Rússarannsóknina í fyrra.
Skömmu eftir að Trump rak Comey, lýsti hann í sjónvarpsviðtali að Rússarannsókn FBI hefði verið ástæðan.
Flynn, sem Comey taldi að Trump vildi að hann hætti að rannsaka, játaði sig sekan af ákæru sérstaka rannsakandans um að hafa logið að alríkislögreglunni í byrjun síðasta mánaðar. Hann er sagður vinna með rannsókn Mueller.