Erlent

Lögmenn Trump telja hann ekki þurfa að hitta Mueller

Kjartan Kjartansson skrifar
Robert Mueller rannsakar meint samráð framboðs Trump við Rússa og hvort forsetinn hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.
Robert Mueller rannsakar meint samráð framboðs Trump við Rússa og hvort forsetinn hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar. Vísir/Getty
Þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi sjálfur sagst hlakka til þess að ræða við Robert Mueller, sérstakan rannsakanda á því hvort að framboð hans hafi átt samráð við Rússa, telja lögmenn forsetans að Mueller hafi ekki gert nóg til að sýna að hann verði að ná tali af Trump augliti til auglitis.

Greint hefur verið frá því í bandarískum fjölmiðlum að Mueller vilji ná tali af Trump á næstu vikum. Rannsókn hans er nú ekki síst talin beinast að því hvort að forsetinn hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar, til dæmis með því að reka James Comey sem forstjóra alríkislögreglunnar FBI í maí.

Á dögunum sagði Trump við fréttamenn að hann „hlakkaði til“ að ræða við rannsakendur Mueller og að hann myndi gera það eiðsvarinn. Sló hann þó þann varnagla að lögmenn hans þyrftu að samþykkja viðtal við Mueller.

Engin fordæmi um að forseti geti forðast að bera vitni

CNN-fréttastöðin segir að afstaða lögmannanna sé sú að Trump þurfi ekki að ræða við Mueller. Vísa þeir til fordæma þar sem opinberir embættismenn hafa verið til rannsóknar. Þá hafi dómstólar talið að aðeins væri hægt að kalla þá til vitnis ef rannsakendur hefðu enga aðra leið til að komast yfir tilteknar upplýsingar.

Lögmennirnir telja að Mueller hafi ekki uppfyllt það skilyrði. Þeir vilja að Mueller sýni fram á að aðeins Trump geti svarað þeim spurningum sem hann hefur. CNN segir að sú afstaða sé þó ekki endanleg og viðræður standi enn yfir á milli rannsakendanna og lögmannanna.

Neiti Trump að ræða við Mueller gæti rannsakandinn stefnt honum fyrir ákærudómstól. CNN segir að ekkert lagalegt fordæmi sé fyrir því að forseti geti alfarið vikið sér undan því að bera vitni.


Tengdar fréttir

Trump ætlaði að reka Mueller

Bandaríkjaforsetinn Donald Trump var kominn á fremsta hlunn með að reka sérstaka rannsakandann Robert Mueller, sem kannar tengsl kosningaliðs forsetans við Rússa, í júní í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×