Yfirvöld Tyrklands hafa handtekið forsvarsmann Læknasamtaka Tyrklands og leiðtoga tíu annarra verkalýðsfélaga lækna eftir að Samtökin gagnrýndu í síðustu viku aðgerðir Tyrkneska hersins í norðurhluta Sýrlands. Saksóknari gaf út handtökuskipun á mönnunum í morgun og voru þeir handteknir í átta héruðum Tyrklands í dag.
Minnst 300 Tyrkir hafa sömuleiðis verið handteknir fyrir að gagnrýna aðgerðirnar og yfirvöld Tyrklands á samfélagsmiðlum frá því sókn þeirra inn í Afrinhérað hófst fyrir tíu dögum.
„Hver átök, hvert stríð, skapar líkamleg, sálræn og samfélagsleg heilbrigðisvandamál og veldur hörmungum. Nei geng stríði. Frið núna strax.“ Svo hljóðaði yfirlýsing Læknasamtaka Tyrklands.
Í
samtali við blaðamenn Reuters segir lögmaður Læknasamtaka Tyrklands að læknarnir séu sakaðir um „áróður til stuðnings hryðjuverkasamtökum“ og að „ögra almenningi“. Hann sagði þetta í fyrsta sinn sem forysta samtakanna væri handtekin eins og hún leggur sig.
Eftir að læknasamtökin mótmæltu aðgerðunum sakaði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, samtökin um landráð. Hann sagði læknana vera gengi þræla og þjóna heimsvaldastefnu. Þá sagði hann þá vera ógeðslega og að afstaða þeirra væri án heiðurs.
Eftir að yfirlýsing samtakanna var gefin út sögðu Læknasamtökin að meðlimum þeirra hefði borist fjölda hótana úr öllum áttum.
Samtökin Physicians for Human Rights
fordæmdu ógnanirnar í kjölfarið.
„Það lýsir slæmu ástandi í Tyrklandi að hópur lækna geti ekki sent frá sér friðsama yfirlýsingu án þess að vera hótað líkamsmeiðingum og fordæmdir af þjóðarhöfðingja Tyrklands. Heilbrigðisstarfsmenn eiga að búa yfir frelsi til að tjá sig um ógnanir gegn heilsu fólks án þess að þurfa að óttast hefndaraðgerðir,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna.