„Drekkir sér að lokum sjálfur í eigin lögfræðikostnaði!“ segir Hanna og bendir á að í dómssáttinni felist ekkert ákvæði um þagnarskyldu. Hún hafi séð að rannsókn lögreglu tæki langan tíma og ákveðið að höfða líka einkamál.
„…enda er engin sú fjárhæð sem væri hægt að greiða mér fyrir slíkt. Ég hef hingað til haldið öllum atriðum leyndum af atvikinu í Texas út af einkamálinu, en nú get ég sagt frá því sem átti sér stað. Minn sigur, ef sigur skyldi kallast, felst í að fá undirritað plagg þar sem hann gengst við óréttlætinu sem hann beitti mig. “
Vísir fjallaði á sínum tíma um það þegar Magnús var handtekinn í Austin grunaður um ofbeldi gegn Hönnu Kristínu.
„…þar sem ég var illa barin af manninum sem ég taldi elska mig – hrökklaðist heim grátandi, með marið andlit, útþakin varnaráverkum á handleggjum og fótleggjum, sprungna vör og brotna tönn, í flug án síma (hann mölbraut símann og eyðilagði) eftir vinnuferð,“ segir Hanna Kristín á Facebook.

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Hönnu, segir í samtali við Vísi að málinu í Bandaríkjunum hafi lokið með svokölluðum skilorðsbundnum ákærufresti. Þá sé brot viðurkennt gegn ákveðnum skilmálum. Brjóti aðili aftur af sér er ákært fyrir bæði brotin.
Lögreglan á Íslandi hefur til rannsóknar fyrri ofbeldisbrot gegn Hönnu Kristínu og hefur Magnús verið úrskurðaður í nálgunarbann á meðan. Nálgunarbannið, sem var til hálfs árs, rennur út eftir tvær vikur.
„Áreiti hans og hótanir var linnulaust. En þar sem sakamálið gekk hægt og ljóst var að ekki væri hægt að fara í Texas málið sem sakamál hérlendis þá ákváðum við Arnar að tækla það sem einkamál. Það var ekkert auðvelt við að taka þá ákvörðun að höfða einkamál gegn ofbeldismanni sínum. En ég hafði engu að tapa. Sá sem verður fyrir órétti og ofbeldi og heyrir svo ofbeldismann sinn segja opinberlega að maður sé að ljúga eða stunda ærumeiðingar er martröð líkast. En ég vissi auðvitað hvað var rétt og satt enda hafði Magnús skrifað undir játningu á verknaðinum í Texas.“

Hún segist hafa talið að dómsátt myndi veita henni einhverja tilfinningu um að réttlætið hefði sigrað.
„En málið er að það er ekkert réttlátt við heimilisofbeldi. Það sem þó gefur mér hlýju í hjartað er að hafa þorað að taka málið alla leið og ég bind vonir við að þetta mál verði fordæmisgefandi fyrir aðrar konur í minni stöðu. Hvetji þær til að sækja réttlæti. En þó aðallega að þetta hafi jaðarbreytingaráhrif í átt að réttlátara samfélagi og veiti innsýn í raunveruleika þeirra sem lenda í klóm siðlindra ofbeldismanna,“ segir Hanna.