Innlent

Björgunarsveitarmenn glímdu við afar erfiðar aðstæður á Hellisheiði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bálhvasst og töluverður snjór gerði ökumönnum erfitt fyrir á Hellisheiði í kvöld.
Bálhvasst og töluverður snjór gerði ökumönnum erfitt fyrir á Hellisheiði í kvöld. ívar halldórsson
90 björgunarsveitarmenn eru að ljúka störfum á Hellisheiði og Sandskeiði við að koma ökumönnum til aðstoðar. Aftakaveður er á heiðinni og aðstæður erfiðar, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Hátt í annað hundrað bílar voru fastir þegar mest lét en í samtali við Vísi segir Þorvaldur Hallsson, svæðisstjóri hjá Landsbjörg, að aðstæður hafi verið verstar við Litlu Kaffistofuna.

Þar hafi verið mjög hvasst og vörubílar þverað veginn og þannig teppt alla umferð. Björgunarsveitarmönnum hafi þó tekist að rétta bílana við. Þá hafi einstaka bílar verið fastir sem hafi heft för allra annarra.

Hafi björgunarsveitarmenn, meðal annars útbúnir sérútbúnum tækjum, ýmist losað þá bíla sem voru fastir eða komið öðrum til hliðar og þannig ferjað eða lóðsað þá sem fastir voru aftur niður til byggða.

Segir Þorvaldur að nú sjái menn fyrir endann á þessu verki og aðgerðum á heiðinni muni ljúka á næsta klukkutíma eða svo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×