Það mun ganga í suðaustan storm á Suður- og Vesturlandi í kvöld. Í fyrstu mun honum fylgja snjókoma sem síðar verður að stórhríð að sögn Veðurstofunnar. „Það dregur til tíðinda í kvöld,“ eins og veðurfræðingur kemst að orði. Frostið verður á bilinu 0 til 9 stig.
Áfram eru gular viðvaranir í gildi og víða varasamt ferðaveður.
Þegar líður á kvöldið og nóttina mun þó hlýna í veðri og breytist úrkoman yfir í slyddu og síðan rigningu. Það gengur svo í sunnan og suðaustan storm eða rok í fyrramálið og „því ljóst að flestir á landinu þurfa að huga að lausamunum fyrir kvöldið og nóttina,“ eins og segir á vef Veðurstofunnar. Vindurinn snýst svo í allhvassa suðvestlæga átt á morgun, það mun kólna í veðri og gera má ráð fyrir slydduél. Hefðbundinn útsynningur „eins og Sunnlendingar kalla það.“
Dregur svo úr útsynningnum á laugardag en undir lok helgarinnar gengur í öflugan sunnanstorm með talsverðri rigningu. „Það er víst best að taka einn storm í einu og því verður ekki farið nánar í það að svo stöddu,“ segir gamansamur veðurfræðingurinn. Eftir helgi heldur lægðagangurinn síðan áfram.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Suðaustan stormur í fyrstu, með talsverðri rigningu eða slyddu S- og V-lands. Snýst síðan í allhvassa suðvestanátt með éljagangi, fyrst á SV- og V-landi. Hiti 0 til 5 stig, en frystir víða um kvöldið.
Á laugardag:
Suðvestan 8-15 m/s og él, en léttskýjað á A-verðu landinu. Frost 0 til 5 stig.
Á sunnudag:
Gengur í sunnan storm með talsverðri rigningu, en úrkomulítið NA-lands. Hiti víða 5 til 10 stig. Slydda eða snjókoma V-til á landinu um kvöldið og kólnandi veður.
Á mánudag og þriðjudag:
Suðvestanátt og éljagangur, en þurrt A-lands og bjart með köflum. Frost um allt land.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir hlýja sunnanátt og rigningu, en snýst í suðvestanátt með éljum þegar líður á daginn og kólnar.

