Alþjóðaráð Rauða krossins hefur ákveðið að fresta för annarrar bílalestar með neyðargögn sem senda átti til yfirráða uppreisnarmanna í austurhluta Ghouta í Sýrlandi. Ástæðan er áframhaldandi vopnaskak þar og síbreytilegar aðstæður á vettvangi.
AP-fréttastofan segir að stjórnarher Bashars al-Assad forseta hafi náð valdi á um helmingi svæðisins og hafi í raun skipti yfirráðasvæði uppreisnarmannanna í tvennt. Tugir þúsunda óbreyttra borgara eru fastir á milli steins og sleggju þar.
Stjórnarherinn reyni nú að láta kné fylgja kviði með stigvaxandi loftárásum og sprengjukúluregni. Þá eru ásakanir um að saríngasi hafi verið beytt.
Geta ekki haldið aðgerðum áfram eins og er
Ingy Sedky, talskona Rauða krossins í Sýrlandi, segist ekki geta sagt til um hvenær bílalestin getur haldið af stað með neyðargögn.
„Aðstæður eru að breytast hratt á svæðinu sem gerir okkur ekki kleift að halda áfram aðgerðum að svo stöddu,“ segir hún.
Sýrlensk stjórnvöld lögðu hald á töluverðan hluta þeirra neyðargagna sem fyrri bílalest átti að flytja inn á svæði uppreisnarmanna í byrjun vikunnar. Þá komust fjórtán flutningabílar af 46 ekki á áfangastað vegna harðnandi átaka á svæðinu.
Hundruð óbreyttra borgara hefur fallið í sókn stjórnarhersins gegn uppreisnarmönnum með fulltingi Rússa síðustu vikurnar.
