Innlent

Stjórnarráðið ætlar að fara fram með góðu fordæmi með loftslagsstefnu

Kjartan Kjartansson skrifar
Ætlunin er að kolefnisjafna starfsemi stjórnarráðsins.
Ætlunin er að kolefnisjafna starfsemi stjórnarráðsins. Vísir/GVA
Tólf milljónum króna verður varið í gerð loftslagsstefnu og aðgerðaáætlunar fyrir stjórnarráð Íslands. Ætlunin er að stjórnarráðið fari fram með góðu fordæmi, dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af starfsemi þess og kolefnisjafni sig sem fyrst.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að ríkisstjórnin hafi samþykkt að verja hluta af stefnufé til verkefnisins. Hluti fjárins verður notaður í vinnu sérfræðings eða ráðgjafa og hluti til beinna aðgerða til að draga úr losun og hefja kolefnisjöfnun á starfsemi stjórnarráðsins. Starfinu verður stýrt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að stjórnarráðið gangi fram með góðu fordæmi í loftslagsmálum. Loftslagsstefna fyrir stjórnarráðið verður eitt þeirra verkefna sem unnið verður að í tengslum við aðgerðaáætlun fyrir Ísland í loftslagsmálum. Hún á að vera tilbúin á þessu ári.

Upphaflega átti aðgerðaáætlunin að vera tilbúin fyrir lok síðasta árs. Kosningar og stjórnarskipti hafa hins vegar tafið vinnu við hana.

Loftslagsstefna og aðgerðaáætlun stjórnarráðsins á einnig að nýtast opinberum stofnunum. Þær geti fengið ráðgjöf um hvernig þær geti markað sér stefnu og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.


Tengdar fréttir

Endurheimt votlendis gagnast takmarkað gagnvart Parísarmarkmiðunum

Ísland þyrfti að jafna út losun frá framræstu landi síðasta rúma áratuginn áður en hægt væri að nýta endurheimt votlendis sem loftslagsaðgerð gagnvart Parísarsamkomulaginu. Jafnvel þá væri aðeins hægt að nýta endurheimtina að litlu leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×