Innlent

Veginum í Öræfum lokað vegna hvassviðris

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir klukkan níu fyrir hádegi í dag.
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir klukkan níu fyrir hádegi í dag. veðurstofan
Vegagerðin hefur lokað þjóðvegi 1 um Öræfasveit vegna hvassviðris en að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi hafa vindhviður mælst yfir 40 metra á sekúndu.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Vegagerðarinnar segir að mjög hvasst verði í Öræfum í austan- og norðaustanátt þar sem hnútar allt að 40 til 50 metrar á sekúndu munu koma til með að standa af jöklinum.

„Stórvarasamt ferðafólki og kemur til með að standa fram til kl. 15-16. Sandfok að auki á Skeiðaársandi.  Einnig hviður 35-40 m/s  í Mýrdal og undir A-Eyjafjöllum með morgninum og fram yfir kl. 16,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Austan og norðaustan 13-20, en 20-25 á Suðausturlandi og einnig syðst á landinu með morgninum. Rigning eða slydda um landið austanvert og snjókoma til fjalla, en þurrt að kalla vestantil. Lægir mikið í kvöld.

Austan og suðaustan 5-10 um landið austanvert á morgun en annars hæg breytileg átt. Rigning eða slydda með köflum SA- og A-lands, en snjókoma til fjalla, en skýjað á köflum vestantil. Hiti 1 til 8 stig að deginum, hlýjast suðvestanlands.



Á föstudag (föstudagurinn langi):


Hæg norðaustlæg eða breytileg átt og dálítlar skúrir eða él í flestum landshlutum. Hiti 0 til 5 stig.

Á laugardag:

Norðaustlæg átt, 5-10 m/s, víða él og frost 0 til 6 stig, en úrkomulítið á S- og V-landi og hiti 1 til 5 stig.

Á sunnudag (páskadagur):

Austlæg eða breytileg átt, skýjað og víða snjókoma um tíma. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag (annar í páskum) og þriðjudag:

Útlit fyrir norðaustanátt með éljagangi og kólnandi veðri, en yfirleitt bjartviðri S- og V-lands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×