Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður vera að ýta á eftir því að bandaríski herinn fjármagni landamæramúrinn fyrirhugaða á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Washington Post greinir frá en í frétt blaðsins segir að Trump hafi viðrað hugmyndina við hans helstu ráðgjafa, auk þess sem að hugmyndin hafi komið upp á fundi Trump og Paul Ryan, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Múrinn var eitt helsta kosningaloforð Trump fyrir forsetakosningarnar árið 2016 en brösuglega hefur gengið að koma byggingu hans af stað. Í fjárlögum sem samþykkt voru á þinginu fyrir skömmu voru 1,6 milljarðar dollara eyrnamerktar múrnum, en Trump hafði farið fram á mun hærri upphæð, eða 25 milljarða dollara.
Er Trump sagður hafa vakið athygli á því að varnarmálaráðuneytið hafi fengið háar fjárhæðir í fjárlagafrumvarpinu, um 700 milljarða dollara, og geti því „léttilega“ fjármagnað byggingu múrsins
Segir í fréttinni að Trump vonist til þess að geta fengið varnarmálaráðuneytið til þess að fjármagna bygginguna á grundvelli þjóðaröryggis Bandaríkjanna. Þá segir einnig að ólíklegt sé að hægt sé að fara þessa leið til þess að fjármagna byggingu múrsins, en samþykki þingsins þarf til þess.

