Innlent

Varasamt ferðaveður á Suðausturlandi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Vindaspá − Þriðjudagur kl. 12:00
Vindaspá − Þriðjudagur kl. 12:00 Skjáskot/Veðurstofa Íslands
Veðurstofa Íslands spáir suðaustan hvassviðri eða stormi á Suðvestanverðu landinu fram á morgun og snörpum vindstrengjum við fjöll. Er þetta varasamt ferðaveður samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni í kvöld.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland til hádegis á morgun, þriðjudag.  Spáð er suðaustan 15-25 m/s en hvassast undir Eyjafjöllum og mjög snarpar vindhviður á þeim slóðum. Eins má búast við rigningu eða slyddu á köflum. Einnig er gul viðvörun í gildi fyrir miðhálendið til 10 í fyrramálið. Suðaustan 20-28 m/s og él, einkum sunnan jökla. Slæmt ferðaveður.

Á morgun er spáð suðaustan 15-23 m/s og rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands. Heldur hægari vindur annars staðar með éljum austast, en þurrt á Norðurlandi. Austan 8-18 á morgun, hvassast með S-ströndinni. Úrkomulítið síðdegis, en él SA- og A-lands. Hiti yfirleitt 0 til 7 stig að deginum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Austan og norðaustan 13-20 m/s, en 20-25 á Suðausturlandi og einnig syðst á landinu. Rigning eða slydda suðaustan- og austanlands, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hiti 1 til 7 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.

Á fimmtudag (skírdagur):

Hæg austlæg eða breytileg átt, en norðaustan 8-13 syðst á landinu. Víða léttskýjað, en dálítil snjókoma eða slydda austanlands. Hiti breytist lítið.



Á föstudag (föstudagurinn langi):

Hæg breytileg átt. Skúrir eða él í flestum landshlutum og hiti 0 til 5 stig.



Á laugardag:

Gengur í norðanátt með snjókomu eða éljum, einkum um landið norðanvert. Kólnandi veður.



Á sunnudag (páskadagur) og mánudag (annar í páskum):

Útlit fyrir norðanátt með með éljum. Mjög kalt í veðri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×