„Ég á alveg eins von á að aðrir í þessum geira muni fylgja í kjölfarið,“ segir Haraldur Eiríksson, sölu- og markaðsstjóri hjá Veiðifélaginu Hreggnasa, sem birti í gær afgerandi stjórnarsamþykkt félagsins gegn sjókvíaeldi og afurðum þess.
Sjókvíaeldi á norskum laxi er hafið við strendur Íslands og segir í samþykkt stjórnarinnar að fjölmörg dæmi séu um að slíkt eldi hafi neikvæð áhrif á náttúrulega stofna laxa og silunga. Bent er á umhverfisáhrif og sjúkdómahættu sem fylgi slíkum iðnaði.
„Vegna þessa er rétt að ítreka að Veiðifélagið Hreggnasi býður viðskiptavinum sínum ekki upp á slíka vörur í sínum veiðihúsum. Jafnframt er því beint til viðskiptavina, bæði innlendra og erlendra, að sniðganga sjókvíaeldisfisk og kynna sér vel uppruna vörunnar í verslunum og á veitingastöðum,“ segir í samþykktinni sem birt var á Facebook.
Hreggnasi leigir meðal annars Grímsá, Laxá í Dölum og Laxá í Kjós,
„Margir af erlendum viðskiptavinum okkar hafa mjög sterkar skoðanir á þessu. Stór hluti viðskipta okkar kemur frá Bretlandseyjum og þar er mönnum mjög heitt í hamsi því þar horfa menn til Skotlands og hvernig ástandið er þar,“ segir Haraldur í samtali við Fréttablaðið
Hann segir sjókvíaeldi á laxi vera veiðiréttareigendum, sem og öðrum, mikið áhyggjuefni og bendir á harðorða yfirlýsingu Veiðifélags Víðidalsár á dögunum.
„Við erum bara að skerpa á þessu, þetta er ekki stefnubreyting hjá okkur en í fyrsta skipti sem við förum opinberlega með það að við sniðgöngum þetta og erum ekkert feimnir við það.“
