Í samtali við fréttamann ABC-sjónvarpstöðvarinnar sagði Comey að Donald Trump, rauði þráðurinn í bókinni, væri „siðferðislega vanhæfur“ til að gegna embætti Bandaríkjaforseta. Hann kæmi fram við konur eins og kjötstykki, dregi það versta fram í samstarfsmönnum sínum og ofan á allt saman væri hann raðlygari. Ekkert væri nógu smátt eða stórt til þess að Trump myndi ekki ljúga um það.
Sjá einnig: Bandaríkjaforseti fer af hjörunum vegna bókar Comey
Hann sagðist þó ekki hafa trú á því að forsetinn sé andlega vanheill eða sé að takast á við elliglöp. Ekkert sé heldur við líkamlega heilsu forsetans að sakast, það sé siðferðisáttaviti Trump sem sé vanstilltur.
Í viðtalinu ræddi Comey meðal annars um viðbrögð forsetans við nasistagöngunni í Charlottesville í fyrra. Þar lét kona lífið eftir að hvítur þjóðernissinni ók bíl sínum í gegnum þvögu mótmælenda. Forsetinn var harðlega gagnrýndur fyrir að fordæma ekki morðið en hann er alla jafna fljótur að tísta þegar sambærileg hryðjuverk eru framin á bandarískri grundu.
Sjá einnig: Trump kallar fyrrverandi forstjóra FBI „óþokka“
„Maður sem samsamar sig við það sem gerðist í Charlottesville, maður sem talar við konur eins og þær séu kjötstykki, sem lýgur um allt á milli himins og jarðar og trúir því að bandaríska þjóðin kaupi það - það er einstaklingur sem er ekki hæfur til að vera forseti Bandríkjanna, út frá siðferðissjónarmiðum,“ sagði Comey.
Þrátt fyrir allt ofantalið vill Comey þó ekki að Trump verði settur af. Hann vill að bandaríska þjóðin læri af mistökum sínum og bætti upp fyrir þau í kjörklefanum. „Bandaríkjamenn verða að rísa upp, mæta á kjörstað og kjósa út frá gildum sínum,“ sagði Comey við ABC. „Að lögsækja [forsetann] vegna embættisafglapa myndi sneiða hjá því.“
.@GStephanopoulos: “Is Donald Trump unfit to be president?”
— ABC News (@ABC) April 16, 2018
@Comey: “Yes, but not in the way I often hear people talk about it...I don't think he's medically unfit to be president. I think he's morally unfit to be president.” https://t.co/nzGYlTmLXf #Comey pic.twitter.com/4eag9flFZ2
Honum hafi hreinlega verið „óglatt, mér leið eins og ég hafi verið barinn niður. Það var sem ég væri einn, að allir hötuðu mig en að það væri engin leið út úr þessu því að ég vissi að það sem ég hafði gert var það rétta í stöðunni.“ Comey sagði því að hann myndi ekki hika við að endurtaka leikinn, annað myndi grafa undan alríkislögreglunni.
Eins og Vísir hefur greint frá er allt á yfirsnúningi í Repúblikanaflokknum, flokki forsetans, vegna útgáfu bókarinnar. Búið er að ræsa út almannatengslateymi sem hefur það eitt hlutverk að rægja allt sem fram kemur í bókinni og allt sem James Comey mun koma til með að segja um efni hennar. Flokkurinn var því ekki lengi að bregðast við viðtali gærkvöldsins.
Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem segir að Comey geti trútt um talað, ef það sé einhver sem sé lygari þá er það Comey sjálfur. „Það eina sem er verra en árangur Comey í starfi er tilhneiging hans til að segja hvað sem er til að selja bækur,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.