Skoðun

Vondu útlendingalögin

Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson skrifar

Við upphaf árs 2017 tóku gildi ný útlendingalög. Strax í upphafi voru þau gagnrýnd fyrir að vera óvönduð og hefur gagnrýninni verið gefið vægi með þeirri staðreynd að á hinum stutta tíma frá samþykkt laganna hafa fimm breytingar á þeim tekið gildi.



Þegar ég vann hjá kærunefnd útlendingamála, og á meðan lögunum hafði aðeins verið breytt einu sinni, vakti ég athygli galla, að mínu mati alvarlegum, í einu ákvæði þeirra. Mér var tjáð að dómsmálaráðuneytið, sem fer með málaflokkinn, væri meðvitað um gallann. Fjórum stórum breytingum síðar stendur ákvæðið þó enn óbreytt.



Í 4. mgr. 31. gr. eldri útlendingalaga var kveðið á um að synjun á tilteknum dvalarleyfum sé ekki heimilt að framkvæma nema gefinn hafi verið kostur á að leggja fram kæru. Ákvæðið var fært orðrétt yfir í 4. mgr. 103. gr. hinna nýju laga en í meðför allsherjar- og menntamálanefndar var orðalagi þess breytt þannig að í stað þess að synjun komi ekki til framkvæmda nema að gefnum kosti á kæru segir nú að ekki sé heimilt að synja tilgreindri tegund umsókna nema gefinn hafi verið kostur á að leggja fram kæru. Felld voru út orðin um framkvæmd og þannig voru lögin samþykkt.



Synjun og framkvæmd synjunar eru aðskildir hlutir. Hinn fyrri vísar til töku ákvörðunar og hinn síðari til réttaráhrifanna sem ákvörðuninni fylgja. Í nýja ákvæðinu er því til staðar lögfræðilegur ómöguleiki.



Ekki er hægt að kæra ákvörðun fyrr en hún hefur verið tekin og samkvæmt ákvæðinu er ekki heimilt að taka ákvörðunina fyrr en gefinn hefur verið kostur á að kæra hana. Réttasta túlkun ákvæðisins samkvæmt orðalagi er að þar sem skilyrðið í niðurlagi málsliðarins er aldrei uppfyllt sé jafn framt aldrei heimilt að synja fólki um dvalarleyfi.



Bersýnilega var þetta ekki markmið löggjafarinnar og því er um galla í lögunum að ræða. Við venjulegar kringumstæður lenda mistök sem þessi að endingu fyrir dómstólum ef ekki er úr þeim bætt með frumvarpi frá viðeigandi ráðherra. Hér kemur annað til skoðunar og það er hin sérkennilega staða að þegar umsókn um dvalarleyfi hefur verið synjað og umsækjanda vísað frá landi þá er ekki hlaupið að því fyrir viðkomandi að reka hér dómsmál.



Af þeirri ástæðu er ólíklegt að einhver sem hefur hagsmuna að gæta muni láta reyna á ákvæðið og enn ríkari skylda til staðar fyrir ráðherra að útiloka réttaróvissu og leiðrétta lögin.



Farsælast er að frumkvæðið að breytingum sem þessum stafi frá ráðherra málaflokksins og til marks um óvandaða stjórnhætti að gölluð lög séu látin standa óbreytt löngu eftir að ráðuneytið varð meðvitað um mistök við gerð þeirra. Sér í lagi þar sem gallinn sem hér var fjallað um er langt frá því að vera eini gallinn í útlendingalögum.



Mistök sem þessi setja bæði starfsfólk stofnananna, sem starfa við beitingu þeirra, í óþægilega stöðu og skapa réttaróvissu fyrir fólk sem vegna stöðu sinnar hefur ekki tök á að gæta réttar síns fyrir dómi. Ég skora á ráðherra að láta sig málaflokkinn varða og beita sér strax fyrir leiðréttingu hinna gölluðu laga.



Höfundur er lögfræðingur og formaður Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×