Talsmaður Hvíta hússins greindi frá staðsetningunni í nótt en fundurinn fer fram þann 12. júní næstkomandi, á þriðjudaginn í næstu viku.
Þetta verður fyrsti fundur sem leiðtogi Norður-Kóreu hefur átt með sitjandi forseta Bandaríkjanna. Í ljósi sögulegs mikilvægis fundarins var því ekki talið úr vegi að velja virðulegan fundarstað.
Sjá einnig: Hver á að borga hótelið fyrir Kim Jong-un?
UPDATE: The venue for the Singapore summit between @POTUS and Leader Kim Jong Un will be the Capella Hotel on Sentosa Island. We thank our great Singaporean hosts for their hospitality.
— Sarah Sanders (@PressSec) June 5, 2018
Hótelið er sagt sitja á landareign sem telur um 500 hektara, sé uppfullt af alls kyns þægindum, einkaströndum og fallegum golfvöllum.
Líklegt verður að teljast að Trump og Kim grípi sér golfkylfu í hönd einhvern tímann á milli funda, en sá fyrrnefndi er þekktur fyrir að draga þjóðarleiðtoga með sér á golfvöllinn.
Hvort sá síðarnefndi sé liðtækur í golfi liggur þó ekki fyrr. Fræg er þó flökkusagan af föður hans, Kim Jong-il, sem sagður er hafa farið 11 holur í höggi á einum golfhring í Pjongjang.
Hvað sem því líður þá mun ekki væsa um leiðtogana, ef marka má myndirnar af fundarstað þeirra á vef hótelsins.