Manafort er sagður hafa reynt að hafa samband við vitni í gegnum síma, milliliði og með dulkóðaða samskiptaforritinu WhatsApp. New York Times segir að eitt vitnanna hafi sagt alríkislögreglunni FBI að Manafort hafi reynt að fá það til að bera ljúgvitni. Tvö vitni eru sögð hafa veitt FBI upplýsingar um skilaboð sem þau fengu frá Manafort.
Vitnin tengjast áskökunum um að Manafort hafi skipulagt almannatengslaherferð fyrir úkraínsk stjórnvöld þar sem hann fékk evrópska fyrrverandi stjórnmálamenn til að tala máli Austur-Evrópulandsins. Manafort á að hafa reynt að hafa samband við Evrópumennina til að segja þeim að bera vitni um að þeir hafi aðeins unnið í Evrópu, ekki Bandaríkjunum eins og saksóknarar halda fram.
Faldi málafylgjustörfin fyrir bandarískum yfirvöldum og skattinum
Ákærurnar á hendur Manafort varða meðal annars að hann hafi starfað sem málafylgjumaður erlends ríkis án þess að gera grein fyrir þeim störfum við bandarísk yfirvöld eins og lög kveða á um. Hann er einnig sakaður um að hafa peningaþvætti og skattsvik í tengslum við greiðslurnar sem hann fékk fyrir störf sín sem málafylgjumaður.Hann var kosningastjóri Trump um fimm mánaða skeið fram í ágúst árið 2016. Eftir að ásakanir komu fram um að Manafort hefði þegið milljónir á laun frá ríkisstjórn Viktors Janúkóvitsj í Úkraínu steig hann til hliðar.
Rick Gates, viðskiptafélagi Manafort til fjölda ára, hélt hins vegar áfram störfum sem aðstoðarkosningastjóri framboðsins og síðar fyrir undirbúningsnefnd fyrir valdatöku Trump. Hann var einnig ákærður en náði samkomulagi við saksóknara um að veita þeim upplýsingar.