Viðskipti innlent

Halla Tómasdóttir ráðin forstjóri B Team og flytur til New York

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Halla Tómasdóttir flytur til Bandaríkjanna fyrir draumastarfið.
Halla Tómasdóttir flytur til Bandaríkjanna fyrir draumastarfið. vísir/stefán
Halla Tómasdóttir hefur verið ráðin forstjóri B Team http://www.bteam.org/  og tekur við starfinu þann 1. ágúst næstkomandi. Höfuðstöðvar þeirra eru í New York svo í sumar mun Halla flytja með fjölskylduna til Bandaríkjanna. Hún sagði frá þessum gleðifréttum á Facebook.

„The B Team var stofnað fyrir fimm árum af þeim Richard Branson (stofnanda Virgin Group) og Jochen Zeitz (fv. forstjóra Puma). Þeir, ásamt öðrum hugrökkum leiðtogum sem ég ber mikla virðingu fyrir, hafa einsett sér að leiða þá umbreytingu sem þarf að verða á viðskipta- og stjórnarháttum á heimsvísu,“ segr Halla um fyrirtækið.

Mikill heiður

Halla segir að B Team endurskilgreini hlutverk fyrirtækja, sem þurfi að skila hagnaði til að vera sjálfbær en verði líka að beita afli sínu í þágu umhverfis og samfélags.

„Aðrir stjórnarmenn eru m.a. Arianna Huffington (stofnandi Huffington Post), Mary Robinson (fv. forseti Írlands), Professor Muhammad Yunus (Nóbelsverðlaunahafi og stofnandi Grameen Bank), Christiana Figueres (fv. Loftslagsstjóri Sameinuðu þjóðanna), Marc Benioff (stofnandi og forstjóri Salesforce), Dr. Gro Harlem Brundtland (fyrsti kvenforsætisráðherra Noregs), Sharan Burrow (aðalritari alþjóðlega stéttafélagasambandsins) og Paul Polman (forstjóri Unilever) sem er að taka við sem stjórnarformaður B Team á sama tíma og ég hef störf.“

Hún segir að það sé mikill heiður að vera treyst fyrir forystuhlutverki fyrir svo mikilvæg verkefni og hlakkar til að starfa með þessum leiðtogum og öðru starfsfólki að málum sem hún brenni svo einlæglega fyrir.

„Í hnotskurn snýst þetta allt saman um þá tegund forystu sem við verðum að sjá, jafnt í einkageiranum sem og annarsstaðar. Ég hlakka virkilega til að ljá hug minn, hjarta og hendur í þágu slíkrar forystu og trúi því að þarna geti ég gert gagn og látið gott af mér leiða.“






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×