Innlent

„Ekki Alþýðusambandið sem semur um laun þeirra tekjulægstu“

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson er forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson er forseti ASÍ. VÍSIR/VILHELM
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði í Sprengisandi í morgun að það séu takmörk fyrir því hversu lengi einn maður getur verið í þessu starfi. Gylfi segir að ASÍ hafi átt mikinn þátt í að leiða þjóðina út úr hruninu með samningum sínum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld á sínum tíma. Gylfi talar um reiði innan verkalýðshreyfingarinnar og að hverju hún beinist.

„Ég tel ekki að þessi reiði beinist að því módeli sem við erum inn í, kjarabaráttu aðferðinni. Heldur hitt að bæði stjórnvöld í skattaákvörðunum eða barnabótum eða velferðarkerfi, atvinnurekendur að hluta, kjaradómur og hækkanir þar. Þetta er uppspretta reiðinnar að mínu mati sem þarf að taka á og þarf að leysa og lægja. Það getur vel verið að til þess þurfi átök á vinnumarkaði. Ég hef verið talsmaður þess. Ég var talsmaður þess til dæmis 2015 að taka dýpra á einfaldlega. Mér fannst stjórnmálin ekki vera að vinna eftir því módeli sem þau vilja fara og það tengist velferðarkerfinu og það tengist skattamálum. Nú hefur þetta æxlast þannig að mér gengur dálítið illa að fá þessa málefnalegu umræðu upp í hreyfingunni. Persóna mín einhvern veginn þvælist fyrir í því og Ragnar Þór og fleiri taka þetta með þessum hætti. Gott og vel. Ég hef legið svolítið undir feldi og ég hef ákveðið að framfylgja þessari aðferðarfræði minni að láta vita á síðasta miðstjórnardegi fyrir sumarleyfi og nota þá tímann til þess að leggja mat á þetta. Ekki bara þetta heldur líka hvað hreyfingin vill gera, því það er miklu stærra en ég og við sem skipum þessa forystu,“ segir Gylfi.

Gylfi bendir á að það er ekki Alþýðusambandið sem semur um laun þeirra tekjulægstu.

„Í fyrsta lagi er það ekki Alþýðusambandið og forseti Alþýðusambandsins sem semur um laun þeirra tekjulægstu það er auðvitað starfsgreinasambandið sem er með þá stærstu hópa og líka verslunarmenn. Ef maður bara horfir á tölurnar í þessu að þá hefur Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið í samstarfi við þá verslunarmenn, bæði VR og Landssamband verslunarmanna, haft forgöngu um það. Það hefur á vettvangi Alþýðusambandsins notið stuðnings, þangað til 2015 reyndar þá klofnaði það. Það samningamódel gengur út á það að hækka meira þá tekjulægstu heldur en þá sem eru á meðaltekjunum,“ segir Gylfi.

Gylfi bendir á þá áfanga sem hafa náðst bara á þessu ári.

„Til dæmis bara á þessu ári 1.maí hækkuðu lægstu laun um 7,2% en almenn laun um 3%. Það er fjögurra prósenta munur á því. Það er ekki hægt að segja það að við höfum ekki verið að hækka lægstu laun. Við höfum nákvæmlega verið að því. En vandinn og reiðin sprettur upp af því. Ég allavega met það þannig að verkalýðsfélögin og stéttarfélögin hafa sem sagt sameinast um þess stefnu. Það hefur að einhverju leyti verið í ágreiningi við háskólamenntaða og kennara því miður. Mér þykir það miður því ég held að sameiginleg ábyrgð okkar allra sé að sjá til þess að þeir tekjulægstu komist betur af. Þegar að stjórnvöld hækka skatta þeirra tekjulægstu, skeða barnabætur þeirra tekjulægstu, vaxtabætur, húsnæðisbætur, hvað eina það sem að fólk hefur þá líka í buddunni þá er það rétt að kaupmáttur þeirra hefur ekki fengið að vaxa í takt við það sem við væntum og ætluðum okkur. En það er ekki vegna þess að hreyfingin hafi brugðist. Það er vegna þess að stjórnmálin hafa brugðist. Það er mjög mikilvægt ef við ætlum að komast að niðurstöðu um það að lagfæra þetta að við verðum að laga þá hluti í bílnum sem eru bilaðir. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að taka fastar á í samskiptum við stjórnvöld,“ segir Gylfi.

Hægt er að heyra viðtalið við Gylfa í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×