Leiðtogar NATO-ríkjanna samþykktu á fundi sínum í gær að hefja formlegar viðræður við Makedóníu um inngöngu ríkisins í hernaðarbandalagið.
Í síðasta mánuði undirrituðu Grikkland og Makedónía samkomulag um nýtt nafn á síðarnefnda ríkið. Áratugalöng deila hafði staðið um nafnið Makedónía enda teygði hin forna Makedónía sig inn fyrir landamæri Grikklands í dag. Grikkir höfðu neitað að viðurkenna nafn Makedóníu en samkvæmt samkomulaginu mun ríkið heita opinberlega Lýðveldið Norður-Makedónía.
Deilan stóð í vegi fyrir því að Makedóníumenn gætu sótt um aðild að NATO og ESB. Þar sem sátt liggur fyrir er sú hindrun úr sögunni í bili. Hún gæti birst á ný ef nýtt nafn verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu Makedóníumanna.
