Lögregla hefur komið því á framfæri við fyrirtækið Ribsafari, sem bauð upp á „skemmtisiglingar“ milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja um verslunarmannahelgi, að heimild þeirra til siglinga nái ekki utan um farþegaflutninga. Gerir lögregla því ráð fyrir að fyrirtækið sigli ekki með farþega í auglýstu „skutli“ um helgina.
Í fyrradag gerði Samgöngustofa athugasemd við ferðir Ribsafari, sem gerir út svokallaða RIB-báta. Athugasemdin laut að því að bátarnir eru ekki samþykktir til fólksflutninga milli staða en fyrirtækið hafði aðeins leyfi til útsýnissiglinga. Þá var athugasemdin áréttuð við fyrirtækið í dag, að sögn Þórhildar Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu.
Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum segir í samtali við Vísi að lögregla hafi haft samband við forsvarsmenn Ribsafari og bent á að þeim væri óheimilt að flytja farþega milli staða, líkt og kom fram í ábendingu Samgöngustofu.
Jóhannes sagðist gera ráð fyrir að fyrirtækið myndi ekki fara auglýstar áætlunarferðir sínar til og frá Vestmannaeyjum um helgina. Ferðirnar voru á dagskrá í dag, föstudaginn 3. ágúst, og á mánudag 6. ágúst.
Ekki náðist í forsvarsmenn Ribsafari við vinnslu þessarar fréttar. Þá er rétt að taka fram að athugasemd Samgöngustofu og lögreglu nær ekki til sérstakra útsýnisferða fyrirtækisins, svokallaðra „fjörferða“, sem í boði eru yfir helgina.
Lögregla stöðvar skutl á Þjóðhátíð

Tengdar fréttir

Svona var stemningin á Húkkaraballinu
Húkkaraballið var haldið í Vestmannaeyjum í gærkvöldi, en ballið er haldið ár hvert á fimmtudeginum fyrir Þjóðhátíð og hleypir fjörinu rækilega af stað.

Samgöngustofa segir leyfi til að „skutla“ á Þjóðhátíð ekki fyrir hendi
Þetta segir í athugasemd Samgöngustofu um starfsemi fyrirtækisins Ribsafari.